Fiskeldi verður leyft í Mjóafirði á Austurlandi – Jökulfirðir óvíst

Yfirlitsmynd sem sýnir hafsvæðið sem strandsvæða- skipulagið nær til.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra hefur tilkynnt formlega svæðisráði um gerð strandsvæðaskipulags á Austurlandi að hann hafi óskað eftir því við Hafrannsóknarstofnun að gert verði burðarþolsmat fyrir Mjóafjörð á Austurlandi og að í kjölfarið muni hann taka ákvörðun um úthlutun eldissvæða í Mjóafirði.

Jens Garðar Helgason framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis sagði í samtali við Bæjarins besta að mikill stuðningur væri við eldið í Mjóafirði og að sveitarfélagið hefði þrýst á um að heimila laxeldið.

Tvær leiðir koma til greina. Annars vegar að afgreiða umsóknir sem fyrir lágu um eldi í firðinum þegar lögum var breytt 2019 eða að bjóða út leyfin eins og ákveðið var við lagabreytinguna að yrði meginreglan þaðan í frá.

Bæjarráð Fjarðabyggðar bókar þegar bréf ráðherra er kynnt í síðustu viku að Fjarðabyggð hafi áður hvatt til þess að Mjóifjörður verði settur í útboð til fiskeldis og að það styðji áform ráðuneytisins.

Á sama tíma hefur Sjávarútvegsráðherra synjað erindi Ísafjarðarbæjar sem óskaði eftir því að að burðarþolsmat yrði framkvæmt fyrir Jökulfirði. Er svarið rökstutt með því að unnið sé að gerð strandsvæðaskipulags og að fram hafi komið þau sjónarmið á samráðsfundi ráðuneytisins þann 10. desember með umsagnaraðilum, þar með talið fulltrúum Ísafjarðarbæjar, að mikilvægt væri að ljúka við strandsvæðaskipulagið áður en nánari ákvarðanir um friðun eða nýtingu einstakra svæða yrðu teknar.

Á Austfjörðum er einnig unnið að strandsvæðaskipulagi.

Svæðisráð gerir tillögu að strandsvæðaskipulagi og annast Skipulagsstofnun framkvæmdina. Tillagan er send ráðherra sem afgreiðir hana. Í strandsvæðaskipulagi er ákveðið hvaða starfsemi er heimil á hverju svæði þar með talið eldi.

Í svæðisráði sitja 8 manns, fjórir fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar fjögurra ráðherra og er fulltrúi Umhverfisráðherra formaður. Formaður er Stefán Gíslason. Fulltrúar sveitarfélaganna eru Þorgeir Pálsson, Strandabyggð, Lilja Magnúsdóttir, Tálknafirði og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, Ísafirði. Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga er Aðalsteinn Óskarsson, Ísafirði. Arnór Snæbjörnsson er fulltrúi Sjávarútvegsráðherra, Erla Sigríður Gestsdóttir er fulltrúi ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Ásta Þorleifsdóttir er fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

DEILA