Fasteignagjöld í fjölbýli hækka mest á Ísafirði

Verðlagseftirlit ASÍ hefur kannað þær breytingar sem orðið hafa á álagningu fasteignagjalda og útsvars milli áranna 2020 og 2021 í 16 fjölmennustu sveitarfélögum landsins.

Álagningarhlutföll fasteignagjalda standa í stað milli ára í flestum sveitarfélögum en fasteigna- og lóðamat hækkar á mörgum stöðum og því hækka fasteignagjöld í mörgum tilfellum.

Mest hækka samanlögð fasteignagjöld í fjölbýli í krónum talið á Ísafirði, eldri byggð en töluverðar hækkanir voru einnig í Mosfellsbæ, Borgarnesi og á Egilstöðum.

Í sérbýli hækkuðu samanlögð fasteignagjöld mest á Sauðárkróki en fasteigna- og lóðamat hækkaði þar einnig mikið. Mest lækkuðu fasteignagjöld í fjölbýli í Njarðvík, Reykjanesbæ en töluverðar lækkanir má einnig sjá á Reyðarfirði, Fjarðarbyggð.

Þegar allir liðir fasteignagjalda hafa verið lagðir saman og upphæðir fasteignagjalda árið 2020 eru bornar saman við upphæðir árið 2021 má sjá að fasteignagjöld í fjölbýli hækka mest á Ísafirði, eldri byggð, bæði fyrir 75 fm, 100 fm og 120 fm og nema hækkanirnar 25.388- 40.401 kr.