Umhverfisráðherra úthlutar 2,6 milljörðum króna – 5,8% til Vestfjarða

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra kynnti í fyrradag ráðstöfun á rúmlega 2,6 milljarða króna framlagi til þriggja ára, sem rennur til verkefnaáætlunar Landsáætlunar um uppbyggingu innviða sem gildir fyrir árin 2021-2023. 85 ný verkefni bætast við að þessu sinni. Til ráðstöfunar á þessu ári eru 764 milljónir króna og fyrir árin 2022-2023 eru 1.864 milljónir króna. Samtals er um 2.628 milljónir króna að ræða á þremur árum.

Fyrir liggur nákvæm sundurliðun á fyrsta liðnum staðir á landsáætlun sem eru samtals 1.950 milljónir króna. Af Þeirri fjárhæð renna tæpar 50 milljónir króna á þessu ári til 7 verkefna á Vestfjörðum og 102 milljónir króna til fjögurra verkefna á Vestfjörðum á árunum 2022-2023. Eru það um 7,8% af þessari upphæð. Hinir liðirnar þrír fá samtals 660 milljónir króna, en sundurliðun þeirrar upphæðar á verkefni liggur ekki nákvæmlega fyrir. Þau verkefni sem þar eru nefnd eru öll utan Vestfjarða. Að teknu tilliti til þess er hlutur Vestfjarða 5,8% af öllu ráðstöfunarfénu. Langmestu fjármagni er varið til verkefna á Suðurlandi eða nærri 1,2 milljarða króna á þessu þriggja ára tímabili. Er það nærri 60% af öllu ráðstöfunarfénu.

Dynjandi fær 52 m.kr.

Fjárfrekasta verkefni á Vestfjörðum á næstu þremur árum er við Dynjanda í Arnarfirði. Varið verður 52 m.kr. til þess að gera útsýnispalla og göngustíga. Til þess að gera göngubrú yfir Hesteyrará fara 48 m.kr. og 19 m.kr. renna til jarðarinnar Dranga í Árneshreppi til að gera göngubrú yfir Meyjará og Húsá og koma upp salernisaðstöðu.

DEILA