Kalkið Súðavík: vonast eftir svörum fyrir lok apríl

Halldór Halldórsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins hf segir að síðustu mánuði hafi þokast áfram í átt að leyfi fyrir kalkþörunganámi af hafsbotni í Ísafjarðardjúpi fyrir nýja verksmiðju í Súðavík. „Við teljum okkur hafa lokið öllum ferlum gagnvart Orkustofnun.“ Halldór bætti því að hann trúi því að ekki seinna en í lok apríl verði farið að sjást í námuleyfið sem Orkustofnun gefur út.

Þegar leyfið er í hendi hefjast viðræður Íslenska kalkþörungafélagsins við Súðavíkurhrepp um landfyllingu og hafnarkant fyrir verksmiðjuna sem verður reist inn við Langeyri. Halldór telur að þær viðræður komi til með að ganga vel þar sem hafnarframkvæmdirnar eru þegar komnar á samgönguáætlun og þær fjármagnaðar. Samningar félagsins við Súðavíkurhrepp myndu ákvarða greiðslur þess fyrir afnot af hafnaraðstöðunni og með þeim yrðu framkvæmdirnar í raun endurgreiddar á löngum tíma.

Halldór Halldórsson sagði að framkvæmdir ættu að geta hafist fljótlega eftir að samningar liggja fyrir. Framkvæmdir við verksmiðjuna sjálfa gæti kannski hafist á næsta ári ef vel hafnarframkvæmdirnar ganga vel.

Álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu um umhverfisáhrif lá fyrir 8. maí 2020 og þá fór málið til Orkustofnunar sem gefur út leyfið fyrir kalkþörungavinnslunni af hafsbotni.

Hafnarframkvæmdirnar kosta nærri hálfan milljarð króna. Verksmiðjan sjálf er talin kosta 3 – 5 milljarða króna og starfseminni fylgja um 30 bein störf og 12 afleidd þjónustustörf.

DEILA