Kennsla íslensku sem annars máls skiptir miklu máli í íslensku samfélagi. Rannsóknir á þessu sviði sýna að erlent fólk fær ekki nóg tækifæri til þess að nota íslensku í talmáli við heimamenn og þannig efla kunnáttu sína í málinu.
Branislav Bédi, verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar, og Marc D. S. Volhardt, kennari í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands, unnu alla síðustu viku í Háskólasetri Vestfjarða í verkefninu LARA sem snýst um rafræna kennslu tungumála í gegnum lestur.
Þeir kynntu verkefnið fyrir Janínu Magdalenu Kryszewsku hjá Fjölmenningarsetri sem er í sama húsi og Háskólasetrið. Janína sýndi áhuga á að nota verkefnið í kennslu í íslensku sem öðru máli fyrir fólk frá Póllandi. Verkefnið LARA, sem styður við tölvustutt tungumálanám á netinu, hjálpar við að efla orðaforða í gegnum lestur.
Það er engin tilviljun að þeir Branislav og Marc hittist hér fyrir vestan enda hefur Marc dvalið á Þingeyri með aðsetur í Blábankanum frá því um áramótin. Þar hefur hann sinnt fjarkennslu við Háskóla Íslands og nýtt tækifærið til að vinna umkringdur stórkostlegri náttúru Vestfjarða og um leið kynnst fólkinu í Blábankanum sem vinnur mjög mismunandi, spennandi störf. Köld böð í Dýrafirðinum tvisvar í viku með sjóbaðsfélaginu Selnum og spjall í heita pottinum eftir á hefur einnig verið fastur liður í tilverunni.
Verst að ekkert sumarnámskeið í íslensku stendur yfir þessa dagana hjá Háskólasetrinu, því kynning á verkefni á borð við LARA hefði fallið vel í kramið þar og þessir tveir reyndu íslenskukennarar auk þess tilvaldir til að miðla af reynslu sinni. Slík tækifæri munu þó án efa koma í framtíðinni.