Innheimtustofnun Ísafirði: óttast um störfin

Fyrirhugað er að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga að færa verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Tryggingarstofnunar ríkisins. Af 18 stöðugildum Innheimtustofnunar eru 8 á Ísafirði. Samkvæmt heimildum Bæjarins hefur verið unnið að þessu í vetur og undirbúningur lagafrumvarps er kominn vel á veg.

Nýlega sendu starfsmenn Innheimtustofnnunar bréf til ráðherra þar sem verklaginu er mótmælt. Munu starfsmenn óttast um framtíð útibúsins á Ísafirði og þá er óvissa um launakjörin eftir breytingu þar sem þau eru talin lægri hjá Tryggingarstofnunni en eru nú hjá Innheimtustofnuninni.

Aðrar heimildir herma að af hálfu ráðuneytisins hafi verið skoðað að flytja alla starfsemi Innheimtustofnunarinnar til Ísafjarðar í kjölfar sameiningar stofnananna en lögð áhersla á að ekkert hafi verið ákveðið.

Málið er sagt á viðkvæmu stigi og enginn tilbúinn til þess að tjá sig opinberlega um málið.