Þorskafjörður: útboð næstu daga, jafnvel á morgun

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út þverun Þorskafjarðar næstu daga, jafnvel á morgun segir Sigurþór Guðmundsson, deildarstjóri.  Hann segir að allt sé tilbúið til útboðs þar sem samkomulag hefur náðst við eigendur Kinnarstaða og Þórustaða, jarða í Þorskafirði.

Það sem verður boðið út er um 2,5 km vegagerð frá Kinnarstöðum við austanverðan Þorskafjörð, fyllingar yfir fjörðinn og 260 metra langa brú og veg að Þórisstöðum og Hjallahálsi við vestanverðan fjörðinn. Ætla má að kostnaður við þennan þátt nýs vegar um Gufudalssveit sé  um 2,5 milljarðar króna sé miðað við upplýsingar sem fram koma í umhverfismatsskýrslu um framkvæmdina.

Að sögn Sigurþórs er einnig unnið að því að gera klárt fyrir útboð á vestari hluta verksins, frá Þórustöðum um Gröf og Hallsteinsnes og þveranir yfir Djúpafjörð og Gufufjörð.  Þar er enn ósamið við eigendur jarðanna Gröf og Hallsteinsnes og viðræður standa yfir og eru á viðkvæmu stigi.