Smáforrit til að skrá þátttöku í Lífshlaupinu

Lífshlaupið er heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra landsmanna.
Markmið þess er að hvetja landsmenn til þess að fara eftir ráðleggingum Embættis landlæknis um hreyfingu hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta.

Í ráðleggingunum segir að börn og unglingar ættu að hreyfa sig í minnst 60 mínútur daglega og fullorðnir ættu að stunda miðlungserfiða hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega.

Nú er einfaldara að skrá hreyfingu sína á meðan á Lífshlaupinu stendur því útbúið hefur verið smáforrit Lífshlaupsins.

Í smáforritinu er hægt að skrá og sjá alla hreyfingu viku aftur í tímann.
Þar er einnig hægt að lesa hreyfingu beint úr Strava.

Það er þó rétt að benda á að það þarf að fara á vefsíðu Lífshlaupsins til þess að stofna aðgang og til þess að stofna lið, en eftir að það er búið er hægt að skrá sig inn í gegnum smáforritið og skrá alla hreyfingu þar.

Smáforritið finnst bæði í App Store (iOS) og í Play Store (Android) undir heitinu „Lífshlaupið“.

DEILA