Skógrækt í Grunnskólanum á Drangsnesi

Í um tvo áratugi, eða frá því rétt fyrir aldamótin 2000, hafa nemendur Grunnskóla Drangsness í Kaldrananeshreppi ræktað tré og hlúð að skógi í skógarreiti skólans.
Skólalundurinn er í landi Klúku í Bjarnarfirði rétt ofan við Hótel Laugarhól þar sem áður var annar af tveimur skólum hreppsins.

Skógrækt hefur verið stunduð í Bjarnarfirði um nokkurt skeið og hefur sem dæmi skógurinn á Svanshóli og Klúku, þar sem skógrækt hófst um sama leyti, vaxið og dafnað svo skóglendið einkennir nú mjög landslag fjarðarins.

Í gegnum vinnu sína í Skólalundinum hafa börnin í Kaldrananeshreppi lagt sitt af mörkum til þess að rækta upp skóglendi á svæðinu sem ekki er þekkt fyrir mikla skóga auk þess sem þau hafa gróðursett birki frá Yrkjusjóði og dreift birkifræjum í þéttbýlinu á Drangsnesi þar sem skólinn stendur.

Yngstu nemendur skólans raða trjágreinum og mynda bókstafi.

Eins og kom fram hér í upphafi eru tæp tuttugu ár síðan þáverandi nemendur Grunnskóla Drangsness skipulögðu þennan reit sem við köllum Skólalund. Eftir nokkurt hlé á skipulögðu skólastarfi í tengslum við reitinn skipar hann nú mikilvægan sess í starfinu bæði vor og haust. Nemendur og kennarar halda tvisvar á ári í skóginn, einn dagur að hausti og einn að vori er sérmerktur Skólalundinum í dagatali skólans.

Arnlín Óladóttir veitir nemendum leiðsögn við gróðursetningu.

Vinnan í Skólalundi er unnin í miklu og góðu samstarfi við Arnlín Óladóttur skógfræðing, fyrrum starfsmann Skógræktar ríkisins, sem búsett er á svæðinu og starfaði áður sem kennari við skólana í hreppnum.
Arnlín hefur skipulagt þau verkefni sem unnin eru í Skólalundinum ásamt kennurum og hafa þau verið afar fjölbreytt. Nemendur hafa auk þess að gróðursetja í reitinn m.a. séð um mælingar á trjám og fylgst þannig með vexti þeirra, lært að greina mismunandi trjátegundir, hlúð að trjánum með því að reyta gras frá smáplöntum, gefa áburð og klippa tvístofna og neðstu greinarnar á þeim trjám sem þurfa á því að halda.