Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að skæð fuglaflensa heldur áfram að breiðast út víða um heim, m.a. í Evrópu.
Líkur á að hún berist hingað með farfuglum eru töluverðar.
Fuglaeigendur þurfa að undirbúa sig undir hertar reglur um sóttvarnir.
Afleiðingar smits á stórum alifuglabúum eru mjög alvarlegar.
Afbrigði fuglaflensuveiru með mikla meinvirkni hefur fundist í fjölmörgum villtum fuglategundum í Evrópu á síðustu mánuðum og jafnframt borist inn á alifuglabú.
Þetta á m.a. við í löndum þar sem farfuglarnir okkar hafa vetursetu eða viðkomu á leið til landsins. Í ljósi þessa er talin töluverð hætta á að veiran berist hingað.
Fyrstu farfuglarnir koma um og upp úr miðjum febrúar og því mikilvægt að fuglaeigendur undirbúi sig undir að verja fuglana sína eins og kostur er. Ef veiran berst inn á alifuglabú og aðra staði þar sem fuglar eru haldnir getur fjöldi fugla drepist og óhjákvæmilegt verður að aflífa alla aðra fugla á viðkomandi stöðum til að hindra útbreiðslu veirunnar.
Smithætta fyrir fólk er talin mjög lítil en þrátt fyrir það er ávallt rétt að gæta smitvarna við handfjötlun á veikum og dauðum fuglum.
Matvælastofnun mun leggja til við ráðherra að fyrirskipa hertar sóttvarnir frá miðjum febrúar.