Landsbjörg lætur smíða þrjú skip

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur auglýst útboð á þremur nýjum björgunarskipum. Útboðið er stærsta einstaka fjármögnunarverkefni sem Landsbjörg hefur ráðist í. Fyrirhugað er að skipin verði tekin í notkun fyrir árslok 2023.
Björgunarskipin þrjú, sem nú hafa verið boðin út, koma í stað eldri skipa Landsbjargar en samtökin eiga þrettán björgunarskip. Flest þeirra eru komin vel til ára sinna en elsta skipið var smíðað árið 1978.

Örn Smárason, verkefnastjórni björgunar segir að fyrsta skipið verði afhent sjálfboðaliðum Björgunarfélags Vestmannaeyja.

„Endaleg staðsetning næstu tveggja skipa ræðst af mörgum þáttum, núna þegar að útboðið er farið að stað förum við samhliða í þá vinnu að meta hvaða skipa af núverandi skipastóli við seljum fyrst. Þegar að sú ákvörðun liggur fyrir verður endanlega gert opinbert hvar næstu tvö skipin fá sína heimahöfn.“

Örn segir að mörgu sé að huga og þá sérstaklega hvernig „við nýtum þennan fyrsta áfanga nýrra björgunarskipa til þess að efla getuna okkar á eins skynsaman máta og mögulegt er.“

Hann segir að ákvörðun verði tekin í samstarfi sjóbjörgunarsjálfboðaliða um land allt, stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar og framkvæmdastjórnar Björgunarbátasjóða sem starfar innan vébanda félagsins.

Útboðið er fyrsti áfanginn í endurnýjun skipanna. Það er haldið á grundvelli samkomulags við dómsmálaráðuneytið um að ríkið fjármagni hluta verkefnisins en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, auk dómsmálaráðherra rituðu nýlega undir viljayfirlýsingu um endurnýjun flotans næstu tíu árin.

Undirbúningur útboðsins hefur staðið yfir frá miðju síðasta ári. Landsbjörg hefur með dyggri aðstoð Ríkiskaupa og vinnuhóps ráðuneyta sniðið útboðslýsinguna að hlutverki skipanna. Að verkinu hefur einnig komið nýsmíðanefnd björgunarskipa frá Landsbjörgu en í henni eiga sæti reynslumiklir sjálfboðaliðar úr áhöfnum björgunarskipa Landsbjargar.

Útboðið er auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu en ráð er gert fyrir að smíði á fyrsta skipinu hefjist fyrir haustið.