Framsókn: Halla Signý vill fyrsta sæti – þrír vilja það

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm. hefur ákveðið að gefa kost á sér í 1.-2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi eftir að efsti maður listans Ásmundur Einar Daðason ákvað að bjóða sig fram í Reykjavík norður í næstu þingkosningum.

Halla Signý Hafði áður sóst eftir 2. sæti listans en endurskoðaði þá ákvörðun eftir tíðindi gærdagsins.

Í færslu á facebook síðu sinni segir Halla Signý:

„Með mína reynslu, þekkingu og þau verkefni í farteskinu sem ég hef unnið að á yfirstandandi kjörtímabili tel ég mig þess búna að taka við keflinu og leiða lista Framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi.
Því býð ég mig fram í 1.-2. sæti á lista Framsóknar í kjördæminu fyrir næstu Alþingiskosningar. Það hefur verið krefjandi en sérlega ánægjulegt að starfa sem þingmaður NV kjördæmis og er ég staðráðin í að leggja áfram alla mína krafta á vogarskálarnar til þess að vinna að stefnumálum Framsóknar.“
Tveir aðrir frambjóðendur eru þegar komnir fram í fyrsta sætið. Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn og bæjarfulltrúi í Skagafirði sendi út tilkynningu í gær um að hann gæfi kost á sér til þess að leiða listann. Áður hafði hann gefið kost á sér í 2. sætið. Stefán Vagn var í 3. sæti í síðustu kosningum.

Þriðji frambjóðandinn í fyrsta sætið er Guðveig Lind Eyglóardóttir frá Borgarnesi. Hún gefur kost á sér í 1.-2. sætið.Frá árinu 2014 hefur Guðveig Lind verið oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð. Í fréttatilkynningu segir Guðveig að „í gegnum störf sín sem sveitarstjórnafulltrúi hafi hún haft tækifæri til að sinna fjölbreyttum trúnaðarstörfum við ólíka málaflokka. Þá sat ég í stjórn Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi í 6 ár og fékk þar jafnframt tækifæri til að vinna að sameiginlegum áherslumálum landsbyggðasamtakana. Sú reynsla, þekking og innsýn sem mér hefur hlotnast á þessum tíma í samstarfi við öflugan hóp fólks úr ólíkum áttum hefur eflt áhuga minn á því að starfa á þessum vettvangi enn frekar.

Í störfum mínum fyrir Framsóknarflokkinn hef ég lagt áherslu á mikilvægi þess að efla þann hóp sem kemur að flokksstarfinu og hlusta á sjónarmið og áherslur ólíkra hópa. Þá tel ég gríðarlega mikilvægt er að þeir sem starfa í umboði kjósenda séu virkir þátttakendur í samfélagsumræðunni og leggi sig fram um að styðja við atvinnulífið uppbyggingu innviða á allri landsbyggðinni“

Hjá Framsókn í Norðvesturkjördæmi fer fram póstkosning. Og þeir sem vilja taka þátt í vali á lista flokksins verða að vera skráðir í Framsóknarflokkinn fyrir 16. janúar nk.

DEILA