Ferð um eystri hluta Auðkúluhrepps í júní 2005 og fleira

Tilefni þessarar greinar er það að höfundur var að endurlesa  áhugaverða (afritaða) frétt í BB frá árinu 2019 af fundi hreppsnefndar Auðkúluhrepps með yfirskriftinni:

Norður og niður með bankaleyndina.

 

Var sú frétt ein af mögrum sem hinn eftirminnanlegi fréttaritari Hallgrímur Sveinsson birti um hugleiðingar og tillögur að gagnlegum úrbótum í þjóðmálunum sprottnar upp í Dýrafirði og norðanverðum Arnarfirði eða Auðkúkuhreppi. Því miður hefur enginn tekið við„keflinu“ þar nyrðra  eftir fráfall Hallgríms og haldið uppi sams konar fréttaþjónustu af svæðinu.  Síðast var vísað í fundargerð hreppsnefndar Auðkúluhrepps sem haldinn var 2. des. 2019 í Hokingsdal og fundarritun annaðist Grélöð hin írska. Margt hefur gerst síðan þá bæði í hreppnum og  á lands- og heimsvísu. Hæst ber jarðgöngin milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar af málefnum innansveitar, veglegt mannvirki sem leysir mikinn farartálma. Fróðlegt væri að fá fregnir af því hvaða nafn hreppsnefndin leggur til á göngin og hvaða stefnu hún hefur um næstu skref í vegagerð. Dynjandisheiðin bíður og sitt sýnist ýmsum um vegarstæðið, hvar verði lagður vegur og hvort hann fari um göng að öllu leyti eða einhverjum hluta. En vegagerð er hafin austan til í heiðinni eða niður um  brúnir Peningsdals sem sumir nefna Penningsdal en aðrir  Pennudal. Það er slæmt þegar örnefni eru á reiki samanber annað örnefni á svæðinu og eitt megineinkenni Barðastrandar sem ýmist er kallað Lómfell eða Lónfell.

Tekin á hlíðinni milli Mosdals og Hokingsdals – horft inn Arnarfjörð

Rifjaðist það upp við endurlestur greinarinnar í BB að liðlega 15 ár eru frá því að pistilritari fór um dalinn á leið sinni frá Laugabóli í Mosdal yfir í  Geirþjófsfjörð. Ferðaáætlunin leyfði ekki lengri og áhugaverða leið fyrir Langanes um Steinanes og þaðan inn Geirþjófsfjörð.

Tekin úr mynni Hokingdals þvert yfir Arnarfjörð – Auðkúla og Hrafnseyri á móti

 

 

Gerður var stuttur stans á Krosseyri í Geirþjófsfirði. Þar hefur allt verið í ró eftir að sendimenn Sturlu Sighvatssonar fóru þar um í leit að Aroni Hjörleifssyni og ekkert sjávarskrimsli lét á sér kræla. Þaðan var haldið að Botni sem sumir nefna Langa-Botn.

 

Greinarhöfundur hefur löngum undrast lýsingu þá sem skráð er í Sturlungasögu um komu sendimanna Sturlu  Sighvatssonar að Geirþjófsfjarðareyri. Sigurður  sá út og mælti : „Menn ríða þar þrír innan með firði og munu þykjast eigi óvíglegri en vér.“  Það er ekki um aðrar eyrar að ræða nema áreyrarnar fyrir botni Geirþjófsfjarðar eða þá eyri sem nú kallast Krosseyri. Þangað er tæpast hestfært hvorki  hlíðina utan frá Djúpeyri því síður hlíðina inn að fjarðarbotni. Þessi lýsing skiftir varla miklu máli fyrir þá sem ekki þekkja til á þessum slóðum en veldur þeim heilabrotum sem hafa farið þarna um og hafa þetta atvik í huga. Sennilega hefur ritari Sturlungu aldrei komið á þessar slóðir en lyftir lýsingunni með þessum hætti. Hins vegar er það líklegra að Hrafssynir hafi verið þarna á ferð og dvalið af og til þegar þeir voru að leynast fyrir útsendurum Þorvaldar í Vatnsfirði.

Krosseyri í Geirþjófsfirði. Sperlahlíð handan fjarðar

Í Botni var afþakkaður kaffisopi hjá Gísla Súrssyni (Magnússyni) í það sinn. Ferðalangurinn þurfti að vera kominn að þjóðveginum í Trölladölum ofan fjarðarins á tilsettum tíma. Ekkert sást til (Njósna-) Helga eða annarra á Sperlahlíð og ekkert vopnaskak við Einhamar.

 

Þegar farið var um Hokingsdal voru öll hús sliguð eða að hruni komin og tæpast aðstæður þar til funda á þeim tíma. Héldu þau hvorki „vatni né vindum“, en voru varpstaðir smáfugla og híbýli geitunga á sumartíma og skýli fyrir sauðfé í hrakviðrum. Myndarlegt og gróskumikið rabbabarabeð, sem áður prýddi hlaðvarpann fyrir framan íbúðarhúsið, var upp gróið og nánast horfið. Kom það því á óvart við lesturinn, að haldinn hafi verið hreppsnefndarfundur á staðnum seint á árinu 2019 og „hurðum skellt“.

Úr túnfætinum í Hokingsdal – horft heim að bæ

 

 

Fróðlegt væri að fá fréttir úr Hokingsdal frá þeim sem eru „kunnugir staðháttum“ (vonandi að þetta orðalag skiljist samanber atriði í Skaupinu 2018) og mannlífinu þar um þessar mundir.

 

Horft inn Geirþjófsfjörð af fjallsbrúninni (Norðfjalli) austan fjarðarins

 

 

Fréttir af fundum hreppsnefndar Auðkúluhrepps hafa jafnan  verið uppörvandi lesning og efla kjark til dáða. Þar endurspeglast gáfulegar og íhugaðar hugsanir í ályktunum sem fylgt er eftir í athöfnum. Ákvörðunar- og athafnafælni virðist óþekkt hugtak.  Það, sem þar er fjallað um, nær langt út yfir þröng og einstrenginsleg málefni innanhrepps, en fljóta þó með, svo sem (rétt) útdeiling á grenjavinnslu og eyðing annarra meindýra, flaustursleg fjallskil og meðferð ómerkinga,  ómarkvissar uppsagnir út embættum, frestanir framkvæmda  vegna fjárþrots, sí endurtekin og gagnslaus mótmæli til ríkisvaldsins um marg svikin lögstudd framlög til ýmissa málefna. Vanefndir ríkisvaldsins eru eitt hinna algildu og sívirku lögmála og jafn óbrigðul flóði og fjöru og gangi tunglsins.  Nei. Fjárhagskreppa er oftast heimatilbúin og meðvituð óráðsía og því óþekkt fyrirbæri í Auðkúluhreppi. Þar bjuggu áður efnaðir bændur  og búa sem héldu  um uppsafnaðan ættarauð. Lánuðu þeir stórkapitalistum á Bíldudal og studdu þá til stórvirkja í verslun útgerð og fiskvinnslu seint á 19. öldinni. Dæmið í nútímanum er þegar Landsbankinn lagði ekki í að fjármagna uppbyggingu kalkþörungavinnsluna á Bíldudal.  Sprenglærðir (skaðmenntaðir) reiknimeistarar  bankans komust að þeirri niðurstöðu að Arnarfjörður væri of langt frá Reykjavík og áhættan í réttu hlutfalli við það. Ath.: Jón Magnússon skipstjóri og athafnamaður á Patreksfirði notaði orðið skaðmenntaður um hámenntaða, velsnyrta og jakkafataklædda starfsmenn fjármálakerfisins. Hann var úr annarri veröld en þeir og annarri öld. Sagt er að Grélöð hin írska hafi þá haft samband við bankafólk í Skotlandi sem taldi sér ljúft og skilt að hlaupa í skarðið og mikinn heiður að fá að koma þar að málum. Oft er það svo að upphefðin kemur að utan. Ekki er vitað hvað norskir fiskeldiskapítalistar eru að hugsa, en sífellt er þörf á peningum.  Ætla má að ráðdeild og aðgætni sé enn höfð í heiðri á norðurströnd Arnarfjarðar. Eru forráðendur þar fremri útrásarvíkingunum, dáðadrengjum, Ólafs fyrrum forseta, og beita fjáraflanum í þágu lands og þjóðar í anda Jóns forseta frá Hrafnseyri. Auðurinn  er ekki látinn hverfa í flóknum fléttum og renna til hulinsheima vítt og breitt á jarðarkringlunni,  engum til gagns. Gíslasker gæti vel þjónað til aflandsnota fyrir ljósfælið fjáraflafólk og þyrfti það því ekki að fara með auðinn úr landi með ærnum tilkostnaði. Aðeins eru um 550 faðmar út í Gíslasker úr fjörunni í Hokingsdal. Allt virðist í jafnvægi og föstum skorðum í Auðkúluhreppi, samfélag, menning, fjármál og samskifti við aðra. Gamli sýslumaðurinn fylgist með að sögn og hefur „hönd á stýrinu“. Styðst hann væntanlega við umboð sýslunefndarinnar sem er löngu liðin undir lok. Stjórnkerfi Auðkúluhrepps virðist í föstum skorðum eins og hefur verið allt frá því Grélöð prinsessa frá Írlandi og Ánn  mótuðu það á landnámsöld og hugsanlega eftir fyrirmyndum frá Noregi. Engin uppstokkun  eða umbylting hefur gengið yfir á nútíma vísu í nafni skilvirkrar samlegðar og það er gert óskiljanlegt og bitlaust, sem áður lá beint við (20 lögbændur)   og skilaði tilætluðum árangri. Annað einkenni festunnar virðist það, að í hreppsnefndinni hafa nánast allir hinir sömu setið  að eigin vilja lífs og liðnir frá því þeir urðu löghæfir til þeirrar þjónustu, hvað sem líður innbyrðis ágreiningi. Ágreiningurinn getur að vísu orðið hvimleiður í fámenni og því magnaðri sem fámennið er meira, aðeins tveir búendur á sitt hvorum sveitarenda og jafnvel ein eða tvær þingmannaleiðir milli bæja. Allir virðast samt sammála um hvernig hreppsnefndin á að skipast.

 

Greinarritari bíður spenntur eftir fréttum úr hinum sæla og vel ilmandi Auðkúluhreppi.

 

Óska Bjössa á Ósi innilega til hamingju með nýja embættið. Hann mun rækja það með með festu og sömu alúð og „Svarta gengið“.

 

Óska Vestfirðingum farsældar á nýju ári.

 

Í árslok árið 2020

 

Úlfar B Thoroddsen.

 

 

 

DEILA