Áramótapistill sveitarstjóra Strandabyggðar

Það verður erfitt að gleyma árinu 2020 og svo sem engin ástæða til. Mótlæti herðir mann, er gjarnan sagt. Í kreppu felast tækifæri, er líka sagt. Það sem kannski skiptir mestu er að draga lærdóm af reynslu síðasta árs og nota þann lærdóm á nýju ári.

Í þessum pistli verður ekki farin sú leið að rekja atburði hvers mánaðar, heldur sú að draga fram það helsta sem gerist eða gerðist ekki, eða þótti markverðara en annað.

 

Kaupfélag Steingrímsfjarðar

Langri og merkri sögu Kaupfélags Steingrímsfjarðar lauk á árinu; sögu samvinnu, samheldni og uppbyggingar atvinnu- og mannlífs. Og það er rétt að undistrika mikilvægi Kaupfélagsins í sögu Strandabyggðar og þátt þeirra sem komu að rekstri og uppbyggingu starfseminnar í gegnum árin.  Kaupfélagið, sem var orðið meira en 120 ára, hefur leitt framþróun á svæðinu, staðið að uppbyggingu rækjuvinnslu á Hólmavík, staðið fyrir rekstri verslana í Árneshreppi og Kaldrananeshreppi, stutt við uppbyggingu atvinnulífs, menntunar og samfélagsmála í hvívetna, auk þess að vera ávallt einn stærsti vinnustaður sveitarfélagsins. Strandabyggð væri önnur án þessarar sögu.

Viðskiptaumhverfi kaupfélaga hefur hins vegar átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Rekstur Kaupfélagsins stóðs ekki samkeppni samtímans og því kom að sögulokum. Taprekstur og greiðsluerfiðleikar höfðu einkennt reksturinn undanfarin 15 ár og þrátt fyrir mikla vinnu stjórnar við að halda í hið gamla rekstrarform, var ljóst að Kaupfélag Steingrímsfjarðar var komið á leiðarenda.

Við tók Krambúðin, sem er í eigu Samkaupa.

 

Covid-19

Heimsfaraldurinn hafði vissulega áhrif í Strandabyggð líkt og annars staðar. Rekstur og skipulag stofnana sveitarfélagsins, sem og annara stofnana og fyrirtækja, breyttist. Sóttvarnarreglur og samkomutakmarkanir lituðu daglegt líf og gera enn. Fólk tileinkaði sér breytta dagsskipan.

Þegar leið á vorið kom í ljós að framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, sem eru að jafnaði 45-50% af tekjum Strandabyggðar, myndu dragast saman. Í upphafi árs var lagt upp með áætlun upp á kr. 244 milljónir í framlög frá Jöfnunarsjóði. Eftir að Covid-19 braust út hér á landi, var ljóst að tekjuskerðing ríkisins yrði veruleg, sem hefði áhrif á framlög ríkisins til sjóðsins og þar með til sveitarfélaganna.  Jöfnunarsjóður gaf því út aðvörun á vormánuðum um yfirvofandi 12,5-15% skerðingu á framlögum til sveitarfélaga.

Fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2020 var því endurskoðuð og farið í umtalsverðar aðhalds-, hagræðingar- og niðurskurðaraðgerðir, sem standa enn. Voru framlög sjóðsins nú áætluð um kr. 200 milljónir. Um mitt ár 2020 leggur Jöfnunarsjóður ávallt fram svokallaða enduráætlun sína og sýndi sú áætlun, að breyta í svokölluðu útgjaldajöfnunarframlagi, fólksfjöldabreyta, var dottin út, þannig að enduráætlun Jöfnunarsjóðs sýndi nú áætlun upp á kr. 168 milljónir. Þetta er skerðing um rúmar 70 milljónir frá upphaflegri áætlun. Ljóst var að Strandabyggð var komin í alvarlega fjárhagsstöðu, sem átti sér ekki hliðstæðu í sögu sveitarfélagsins.

Við tóku neyðarfundir með ráðherra sveitarstjórnarmála og starfsmönnum samgönguráðuneytisins Jöfnunarsjóðs auk þess sem unnin var fjárhagsleg úttekt af KMPG á fjárhagslegri stöðu og framtíð Strandabyggðar. Árinu var lokað með um 80 milljón króna tapi og fjárhagsáætlun fyrir 2021 gerir ráð fyrir rúmlega 60 milljón króna tapi.

 

Framþróun í vegamálum

Vegamál og úrbætur í samgöngumálum eru ávallt á lista yfir úrlausnarmál í Strandabyggð. Það hefur gengið mjög hægt að klára mörg brýn mál, sem barist hefur verið fyrir í áraraðir, líkt og Innstrandaveg allan, en sérstaklega kaflann frá Heydalsá að Þorpum, sem hefur verið inni og úti á framkvæmdaáætlun vegagerðarinnar marg sinnis á undanförnum árum.  En það eru jákvæðar hreyfingar og er nú t.d. byrjað að setja upp vegrið í Kollafirði, en þar er vegurinn mjög varasamur í hálku á sama tíma og þarna er akstur með skólabörn og vegurinn hluti af atvinnusóknarsvæði Strandabyggðar. Eins er það fagnaðarefni að fleiri teljarar verða nú settir upp, en niðurstaða talninga á vegum ákvarðar gjarnan þjónustustigið. Hefur lengi verið barist fyrir því að fá fram talningu innan atvinnusóknarsvæðisins, svo talningin verði raunhæf. Ýmsar aðrar úrbætur hafa einnig litið dagsins ljós og hefur náðst góð samvinna við forsvarsmenn Vegagerðarinnar hvað þetta varðar. Því ber að fagna. Það er hins vegar langt í land að vegurinn teljist allur öruggur og í takt við þá umferð sem fer um hann, en einnig í ljósi þess að hann er kynntur nú sem mikilvægur hluti Vestfjarðaleiðarinnar, eða the Westfjordway.

Undir lok árs hófst síðan vinna við sjóvarnargarð á Hafnarbraut, en sú vinna er liður í yfirfærslu á Hafnarbrautinni frá Vegagerðinni til sveitarfélagsins.

 

Öflugt menningarlíf

Það er ekki hægt að ræða um Strandabyggð án þess að nefna menningarlífið, sem er og hefur ávallt verið öflugt.  Vissulega röskuðu samkomutakmarkanir starfsemi leikfélagsins, kórastarfi, félagsstarfi aldraðra o.fl. en annað kom þá í staðinn. Margir viðburðir færðust á netið og í óhefðbundið form.  Hamingjudagar, bæjarhátíðin okkar í Strandabyggð, var t.d. haldin, en með breyttu sniði þar sem t.d. kökuhlaðborði, hoppukastala og öðru sem ekki stóðst takmarkanir varðandi sóttvarnir var sleppt.  Hátíðin tókst engu að síður vel. Bingó og spurningakeppnir færðust á netið sem og bókaupplestur o.fl.

Strandabyggð eignaðist ærslabelg á árinu sem var mikið notaður, af öllum aldurshópum.

 

Sameining skóla

Grunn-, leik- og tónskólar Strandabyggðar sameinuðust í eina rekstrareiningu á árinu. Vonir standa til að afrakstur þeirrar sameiningar verið m.a. meiri samnýting mannafla og nú þegar má benda á kosti þessa að starfsmenn vinna að verkefnum bæði í leik- og grunnskóla. Framundan er nafnasamkeppni um nýtt nafn á sameiginlegan skóla.

 

Sveitarfélagið flutti á árinu

Skrifstofa Strandabyggðar flutti úr Þróunarsetrinu í húsnæði sem eitt sinn var húsnæði Arion banka. Flutningarnir gengu vel og skrifstofa Strandabyggðar býr nú við allt aðra ásýnd og aðkomu en áður.

Þróunarsetrið hýsir áfram mikilvæga starfsemi í okkar samfélagi. Þar er Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofa, Vestfjarðastofa, verkefnastjóri Brothættra byggða, Náttúrustofa Vestfjarða og Ferðamálastofa með starfsmenn auk þess sem Fræðslumiðstöð Vestfjarða er líka með aðstöðu í húsinu. Í sumar flytur dreifnámið í Þróunarsetrið, en það er samstarfsverkefni Fjölbrautarskólans á Sauðárkróki, Strandabyggðar og Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.

Við sjáum fyrir okkur að þarna verði miðpunktur gerjunar í atvinnu- og mannlífi enda ótal tækifæri ónýtt í Strandabyggð.

Aukin samvinna, samstarf

Eitt af því sem gerðist við Covid-19 faraldurinn, er að við færðumst nær hvert öðru; rafrænt. Aldrei hafa jafn margir fundir, ráðstefnur eða heilu þingin verið haldin rafrænt. Í þessari þróun felast mörg mikilvæg tækifæri. Samskipti verða örari, afgreiðslutími málefna styttist, samráð eykst og þekking á aðstæðum og einkennum hvers og eins eykst. Það er mjög mikilvægt fyrir samstöðu meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum. Ég fagna þessu mjög og sendi góðar kveðjur til allra samstarfsfélaga minna um alla Vestfirði og allt land. Hvernig svo sem framtíðin þróast, þá skulum við halda áfram á þessari braut samstarfs og samskipta.

Strandabyggð á að auki í góðu samstarfi við nágrannasveitarfélögin um brunamál, starfsemi skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa, félagsmál, málefni fatlaðra o.fl.

 

Atvinnulíf

Heilt yfir er hægt að segja að atvinnulífið hafi staðist áskoranir ársins 2020 þokkalega, þó með undantekningum.  Sjávarútvegsfyrirtækin gátu haldið nokkuð óskertri starfsemi og var róið eins og í venjulegu árferði.  Hólmadrangur, sem nú er rekinn af nýjum eigendum, fann þó fyrir samdrætti í sölu á mörkuðum og lá vinnsla á rækju talsvert niðri á árinu af þeim sökum.

Fjallskil voru nokkuð góð og er hugur í mörgum bændum hvað varðar aukna vinnslu afurða. Það er mikilvægt að nýta þau tækifæri sem þar eru.

Í ferðaþjónustu gekk misjafnlega og kom ástandið af völdum Covid-19 illa niður á mörgum fyrirtækjum sem þjónusta ferðamenn, líkt og gerðist víða um land. Hvalaskoðunarfyrirtækið Láki felldi t.d. alfarið niður starfsemi sína.  Engin skemmtiferðaskip komu heldur þetta árið.

Mikill samdráttur varð hjá helstu söfnunum, Galdrasafninu og Sauðfjársetrinu, sem byggja mikið á komum erlendra gesta.  Íslenskir ferðamenn heimsóttu Strandabyggð og nágrenni hins vegar sem talsvert og var tjaldsvæðið fullt vikum saman og veitingastaðir urðu að vísa fólki frá á tímabili yfir hásumarið.   Almennt urðu komur ferðamanna þó mun færri en vanalega og þá var tímabilið miklu styttra en áður, þar sem það byrjaði seinna og kláraðist mikið til um verslunarmannahelgi. Undanfarin ár hafa júlí og ágúst verið jafn góðir í gistingu og maí, september og október verið alveg þolanlegir. Hjá sumum fyrirtækjum sem reka gistiþjónustu var þetta því breyting úr sex þokkalegum mánuðum í einn, sem er auðvitað mikill skellur.

Mikilvægi ferðaþjónustu fyrir Strandayggð er mikið og fer vaxandi, enda margir, góðir afþreyingarmöguleikar til staðar, góð þjónusta og víða góðir innviðir.  Ferðaþjónusta er því án efa einn af framtíðar vaxtarbroddum í atvinnulífi Strandabyggðar.

Ýmsar framkvæmdir, sérstaklega í vegamálum á svæðinu, lagningu ljósleiðara o.fl., kölluðu á aðkomu verktaka og er það vel.

Vonbrigði ársins

Þar er úr mjög mörgu að velja, því miður. Covid-19, skerðing á framlögum Jöfnunarsjóðs og það sem því tengdist, koma auðvitað sterklega til greina. En það var líka annað sem olli vonbrigðum og ég nefni hér, endalok viðræðna um hitaveitu á Hólmavík. Umræðan um hitaveitu hafði staðið lengi og formlegar viðræður við landeigendur í Hveravík í Kaldrananeshreppi, höfðu staðið í vel á annað ár. Því miður náist ekki samkomulag um alla þætti samningsins auk þess sem fjárhagsleg óvissa í rekstri Strandabyggðar skyggði verulega á. Niðurstaða sveitarstjórnar var því að slíta formlegum viðræðum, a.m.k. við núverandi aðstæður.

 

Lokaorð

Í upphafi nýs árs er varla í boði annað en að vera jákvæður. Staðan er á margan hátt slæm, en uppgjöf er ekki til umræðu. Unnið verður með ráðuneyti sveitarstjórnarmála og starfsmönnum þess að frekari úrbótum og innan sveitarfélagsins og fyrirtækja og hjá einstaklingum er unnið að mótun nýrra tækifæra. Framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins verða í lágmarki enda stakkurinn þröngur.

Við höldum okkar striki, undirbúum okkur fyrir sumarið og bjóðum alla velkomna á Strandir.  Hér er gott mannlíf, fögur náttúra og mikil tækifæri til útivistar.

Strandabyggð er mikilvægur þjónustukjarni á svæðinu og mörg tækifæri til staðar til að styrkja þá stöðu. Einkunnarorð okkar;  „Sterkar Strandir“ í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir, á vel við, því hér er mikill styrkur í fólkinu og umhverfi þess.

Strandabyggð færir öllum velunnurum sínum óskir um farsælt nýtt ár.

Þorgeir Pálsson

sveitarstjóri Strandabyggðar

DEILA