Skjaldfönn: hálfs mánaðar stormur

Indriði Aðaslteinsson, bóndi á Skjaldfönn í Ísafjarðardjúpi ritar fréttabréf á Facebook síðu sinni í tilefni vetrarsólhvarfa í dag og kemur þannig á framfæri tíðindum og jólakveðjum. Er bæði um að ræða nákvæma tíðafarslýsingu og kjarnyrt málfar sem er orðin frekar fátítt nú orðið. En gefum Indriða orðið:

„Segja má að tíðarfarið hafi verið í meira lagi stirt og umhleypingasamt. Það hefur viðrað illa og úrkoma með fádæmum víðar en á Austfjörðum. Hér við norðanvert Djúp gekk í austan storm 9. des. og hefur lítið lægt síðan og fyrstu 4 sólarhringana með úrhellisrigningu og 6-7 gráðu hita og þar sem kominn var verulegur snjór mátti búast við vatnavöxtum.Og sú varð líka aldeilis raunin.Sunnan af Ófeigsfjarðarheiði um Hraundal rennur samnefnd vatnsmikil á í þrengslum síðustu 3-4 km áður en kemur niður á sléttlendið og hún sameinast Selá hér andspænis Skjaldfönn. Það er kallað hér að Hraundalsáin sé komin niður yfir, þegar hún riður sig í vorhlákum, en slíkt er óþekt á þessum árstíma.

Annað blasti þó við er birta tók 10 des. Dalurinn hér framan við var sem öskumórauður hafsjór, flaumurinn sprengdi upp allþykkan lagnaðarís á Selá, strax eftir hádegi sem síðan ruddi sig til sjávar 6 km leið.  Hér 30 metra vestan bæjarhúsa rennur svo Bæjaráin, vatnslítil oftast, en getur orðið forað með grjótkasti í vorleysingum. Ofan fjallsbrúnar rennur hún um 1 km. í þröngum farvegi með aðhaldi að háum bökkum og nú fullum af lausum snjó. Að morgni 11 des kom svo í ljós að Bæjaránni hafði fundist ráð að fylgja fordæmi stóru systur hins vegar í dalnum, rutt sig ofan brúnar, sem enginn þekkt dæmi eru um áður, komið framm af fjallsbrún 20-30 m breitt vatnskrapahlaup, sem misti þó mesta aflið og dreifðist áleið niður hlíðina, en tókst þó að losa stoðir undir brúarbitum, sem blökktu nú í straumnum eins og þvottur á snúru.

Snjóflóð nánast hér við bæjarvegg, er maður alinn upp við, en svona krapaflóð er ný vá, sem, í báðum umræddum tilvikum má skrifa á aðsteðjandi loftslagsbreytingar. Brúarsmiðir hafa komið á vettvang, en óvíst hvenær gefur til viðgerðar, enda tók stórhríð við af hlákunni fyrir 4 dögum og hefur enn ekki slotað. Hrútar voru settir í ær 18.des og burður hefst því 8.-10. maí. Fámennt en góðmennt þó, verður um hátíðarnar og að sjálfsögðu skata og hangiket á borðum.

Ég vill nota tækifærið til að þakka vinum og vandamönnum, sauðburðarfólki og afrekasmölum fyrir ómetanlega aðstoð,umhyggju og elskulegheit á þessu fordæmalausa veiruári. Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks nýs árs. Þar sem vetrarsólstöður eru í dag, enda ég þessa færslu svohljóðandi:

 

Nú er aftur hlýtt og bjart í hjarta.
Á hægu undanhaldi myrkrið svarta.
Þó enn sé hríð og klaki í hverju spori,
í kófinu þó djarfar fyrir vori.
DEILA