Sameining sveitarfélaga: 7 af 12 studdu niðurfellingu lögþvingunar

Frá Patreksfirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eftir því sem næst verður komist studdu 7 sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðu af 12 sem höfðu atkvæðisrétt á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga   tillögu um sameiningu sveitarfélaga án lögþvingaðra ákvæða um lágmarksíbúafjölda.

Á Vestfjörðum eru 9 sveitarfélög og hefur hvert þeirra eitt atkvæði á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Vesturbyggð fer með tvö atkvæði þar sem íbúafjöldi þess fer yfir 1000 og Ísafjarðarbær hefur þrjá fulltrúa. Samtals hafa því vestfirsku sveitarfélögin 12 atkvæði á landsþingi sveitarfélaganna.

Allir fulltrúar Strandamanna greiddu atkvæði með tillögunni, Eva Sigurbjörnsdóttir Árneshreppi, Finnur Ólafsson Kaldrananeshreppi og Jón Gísli Jónsson Strandabyggð.

Fulltrúi Reykhólahrepps var Ingimar Ingimarsson og studdi hann tillöguna og það gerði einnig Bjarnveig Guðbrandsdóttir Tálknafirði. Baldur Smári Einarsson, Bolungavík og Samúel Kristjánsson, Súðavík greiddu báðir atkvæði með tillögunni. Samtals voru það 7 sem studdu tillöguna sem fjallaði um sameiningu sveitarfélaga án þvingunar með lögum.

Ísafjarðarbær á móti

Tveir fulltrúar Ísafjarðarbæjar greiddu atkvæði á móti tillögunni. Það voru þau Arna Lára Jónsdóttir og Daníel Jakobsson. Þriðji fulltrúinn var Marzellíus Sveinbjörnsson sem ekki gat kosið í gegnum fjarfundarbúnaðinn þrátt fyrir að hafa gert tilraunir til þess. Hann hafði lýst sig andvígan lögþvinguninni.

Afstaða Ísafjarðarbæjar í atkvæðagreiðslunni er á annan veg en afstaða  bæjarstjórnar. Fimm bæjarfulltrúar höfðu lýst andstöðu við lögþvingun eða meirihluti bæjarstjórnar en aðeins tveir studdu það. Atkvæðagreiðslan endurspeglar því ekki viðhorf bæjarstjórnarinnar. Sérstaklega vekur afstaða innan Í listans athygli. Þrír af fjórum bæjarfulltrúum listans eru andvígir lágmarksíbúafjöldaákvæðinu og vilja vinna að sameiningu sveitarfélaga án slíkrar þvingunar en engu að síður fer fulltrúi Í listans í atkvæðagreiðslunni gegn meirihlutaviðhorfinu innan listans.

Vesturbyggð ekki með

Loks greiddu tveir bæjarfulltrúar í Vesturbyggð atkvæði og greiddu þeir ekki atkvæði með framkominni tillögu.  Það voru þær Friðbjörg Matthíasdóttir og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir. Hins vegar fæst ekki upplýst hvort þeir greiddu atkvæði gegn tillögunni eða sátu hjá.

Samanlögð niðurstaða er þá sú að 7 studdu tillöguna um að vinna að sameiningu sveitarfélaga án lögþvingunar, 2 greiddu atkvæði á móti  tillögunni og ekki er vitað um afstöðu tveggja. Einn greiddi ekki atkvæði. Allir fulltrúar í 7 sveitarfélögum á Vestfjörðum studdu tillöguna. Báðir fulltrúar Ísafjarðarbæjar voru á móti og ekki er vitað hvernig fulltrúar Vesturbyggðar greiddu atkvæði að öðru leyti en því að þeir studdu ekki tillöguna.

DEILA