Reykjavíkurborg: krafan skerðir framlög til grunnskóla á Vestfjörðum um 18%

Birtir hafa verið útreikningar Reykjavíkurborgar  til stuðnings kröfunni um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.  Borgin gerir kröfu til þess að fá 4,2 milljarða króna framlag fyrir árin 2015-2019 til reksturs grunnskólans. Sveitarfélögin yfirtóku rekstur grunnskólans með samningum við ríkið árið 1996. Ríkið greiðir um 10 milljarða króna til Jöfunarsjóðsins á ári sem dreift er til sveitarfélaganna til þess að jafna getu þeirra til að standa undir verkefninu. Bein hækkun útsvars til allra sveitarfélaga var ákveðin 2,33% og miðuð við að það dygði Reykjavíkurborg án frekari framlaga.  Á móti var tekjuskatturinn til ríkisins lækkaður. Þá var 0,77% af tekjuskattsprósentunni fært yfir í útsvarið til viðbótar fyrrgreindum 2,33% og sá hlutur fer til Jöfnunarsjóðsins til jöfnunar milli sveitarfélaganna.

Reykjavíkurborg telur nú að hún eigi rétt til jöfnunarframlagsins og gerir kröfu á ríkið. Fyrir 2019 er samkvæmt kröfu borgarinnar hlutur hennar 885 milljónir króna. Samtals er krafan fyrir árin 2015-2019 upp á 4,2 milljarða króna. Í yfirliti frá Reykjavíkurborg eru framlögin endurreiknuð á hvert sveitarfélag miðað við kröfu borgarinnar.

39% lækkun til Vesturbyggðar fyrir 2019 

Framlögin til sjö sveitarfélaga á Vestfjörðum munu lækkar úr 636 milljónum króna á síðasta ári niður í 523 milljónir króna eða um 18%. Mest yrði lækkunin hjá Vesturbyggð. Framlagið yrði aðeins 78 m.kr en var 127 m.kr. Lækkunin er 49 m.kr. sem gerir 39% niðurskurð framlagsins.  Framlag til Bolungavíkur myndi lækka úr 104 m.kr í 83 m.kr. og í Strandabyggð yrði lækkun grunnskólaframlagsins úr 49 m.kr. í 31 m.kr. Framlag Ísafjarðarbæjar myndi lækka um 10 m.kr. og verða 195 m.kr. og í Tálknafirði yrði lækkun úr 57 m.kr. í 48 m.kr. Framlag til Súðavíkur myndi lækka um 6 m.kr og verða 28 m.kr. en óbreytt framlag yrði í Reykhólahreppi samkvæmt yfirliti Reykjavíkurborgar.

Úr kröfubréfi Reykjavíkurborgar til Ríkisins dags 5. nóv. 2020
DEILA