Marzellíus: styður ekki lögþvingun sveitarfélaga

Marzellíus Sveinbjörnsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Ísafjarðarbæ segir að ekki eigi að þvinga sveitarfélög til að sameinast og þá því síður að hafa fjöldatakmarkanir. „Í sveitarfélögunum er fólk og fólk kærir sig ekki um þvinganir. Þetta verður að ske í fullri sátt í nærsamfélaginu. Náist hún þá er ég hlynntur sameiningu.“

Fyrst samvinna svo sameining

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að til að ná jákvæðri sameiningu sveitarfélaga  þurfi  fyrst að finna flöt á samvinnu um einstök verkefni s.s. hafnarsamlag, sameiginlega sorphirðu, íþróttamannvirki, almenningssamgöngur o.s.frv. Í þessum málaflokkum væri hægt að ná töluverðri hagræðingu sem gæti bætt fjárhagsstöðu okkar töluvert.  Þarna þurfa allir að koma að borðinu.“

Ekki sannfærandi að lofa fúlgum fjár

„Það að lofa fúlgum fjár ef nágrannasveitarfélög ná að sameinast er eitthvað sem mér finnst ekki sannfærandi leið. Frekar að það sé viðurkenning á að það vanti í rauninni fjármagn til sveitarfélaganna til þess að þau geti staðið undir vaxandi ábyrgð.  Sífellt er verið að auka þessa ábyrgð sveitafélaganna og þar átti jöfnunarsjóðurinn að milda höggin en raunin hefur verið sú að það veit enginn frá ári til árs hvað sveitarfélögin fá.  Þetta er eins og í lottóinu, verðum við heppin í ár eða ekki?!“