Sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land leggja sig fram um að vinna mannúðarstörf þar sem sjónum er einkum beint að þeim sem minna mega sín og eru berskjaldaðir. Sjálfboðaliðarnir vinna störf sín af alúð og trúmennsku og eru markmið félagsins sem grundvallast á mannúð höfð að leiðarljósi.
Þó Ísland sé skilgreint sem ein af ríkustu þjóðum heims þá eru alltaf einhverjir sem eiga erfitt með að ná endum saman. Fólk getur lent í tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, atvinnumissis eða annars vanda og á þá rétt á lágmarks framfærslu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Oftast dugir sú aðstoð í tímabundnum erfiðleikum, en jól og aðrir hátíðisdagar geta reynst fólki erfiðir, einkum barnafjölskyldum. Mikilvægt er að fólk geti gert sér dagamun á hátíðisdögum, farið í betri fötin sín, borðað góðan mat og gefið hvert öðru gjafir.
Þeir sem vilja styðja við bakið á Rauða krossinum fyrir jólin geta lagt inn á reikning 556-26-1600 kt: 620780-0579 og þeir sem leita aðstoðar geta sent upplýsingar á netfangið fomadur.isafjordur@redcross.is eða hringt í síma 698 4403 milli kl. 10:00 og 14:00 frá miðvikudegi 9 des til miðvikudags 16 des.
Stjórn Rauða krossins á Ísafirði