Grænbók um byggðamál

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt grænbók um byggðamál í samráðsgátt stjórnvalda. Henni er svo lýst að grænbókin sé greining á byggðamálum og sé undanfari stefnumótunar eða frumvarpsgerðar stjórnvalda. Með því að birta grænbókina á samráðsgáttinni er almenningi og hagsmunaaðilum boðið að taka þátt og setja fram sín sjónarmið um greininguna.

Tekin er saman sú tölfræði sem til er um viðfangsefnið, hvort sem
hún er innlend eða samanburðar tölfræði við önnur ríki. Stöðumatið eða greiningin gefur gott yfirlit yfir lykilviðfangsefnin framundan og helstu leiðir eða áherslur við úrlausn
þeirra segir í aðfararorðum grænbókarinnar.

Að samráðinu loknu tekur grænbókin breytingum og til verður stefna og aðgerðaráætlun sem er birt en nú sem hvítbók. Hvítbókin fer einnig í samráðsgátt og almenningi gefst kostur á að gefa álit sitt á innihaldinu. Að þessu loknu verður til endanleg stefna með aðgerðaráætlun sem verður kynnt sem stefna stjórnvalda.

Verkefnið er til undirbúnings mótun byggðastefnu stjórnvalda til 15 ára og aðgerðaáætlun til fimm ára.

Í grænbókinni eru tölulegar upplýsingar um íbúaþróun í einstökum landshlutum frá 1998 – 2020, hlutfall útlendinga í íbúafjöldanum, atvinnuþátttaka og  meðalatvinnutekjur sundurliðað eftir landshlutum og loks íbúadreifing innan sveitarfélaga.

https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=2863&fbclid=IwAR0NDpXQ8GzMdnWRUDwRIZKkd5ZbDkFuKZIu6e7rXtYn-OZWt7bilApZ7vc

Rakin er alþjóðleg þróun á þessu sviði. Þar kemur fram að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur frá árinu 1999 starfrækt sérstaka nefnd til stefnumörkunar á sviði svæðisbundinnar þróunar. Evrópusambandið hefur í áratugi rekið byggðastefnu sem á sér rætur í stofnsáttmála sambandsins. Frá árinu 1986 hefur verið lögð megináhersla á að
styrkja efnahagslega og samfélagslega samheldni (e. economic and social cohesion) með því að styðja við svæði sem með einhverjum hætti hafa orðið undir í samkeppninni um fólk og fyrirtæki.

Segir í grænbókinni að ofangreindar áherslur í byggðamálum  ásamt ýmsum rannsóknum sem gerðar hafa verið, benda til þess að til að byggðaaðgerðir skili árangri þurfi að byggja þær á styrkleikum viðkomandi svæðis án afmörkunar við tiltekin stjórnsýslumörk, heldur sé
mikilvægt að greina og vinna út frá virkum félags- og efnahagsheildum.
Jafnframt sé mikilvægt að virkja til þátttöku mismunandi stjórnsýslustig, atvinnulíf og þekkingarstofnanir.

Byggðastefna sem skilaði árangri

Sérstaklega er nefnt norskt borgarsvæðisverkefni sem rekið var á árunum 2014-2018 og hafði það að markmiði að styrkja vaxtarmöguleika þeirra (borgar)svæða sem þátt tóku.

Helstu niðurstöður norska verkefnisins voru „að ¾ þeirra 37 svæða sem tóku þátt höfðu styrkt getu sína til atvinnuþróunar. Það sem einkum stuðlaði að árangri voru innri þættir á borð við efnahagslegar bjargir og samvinna innan svæðis. Þá bentu niðurstöður til
þess að mikilvægt hefði verið að gera félags- efnahagsgreiningu á svæðunum
við upphaf verkefnisins.“ segir í grænbókinni.

Í byggðaþróunarverkefnum hafa Norðmenn einnig beitt öðrum aðferðum, s.s. jöfnun flutningskostnaðar, mismunandi tryggingargjaldi af launum, stuðningi við verslun í gegnum Merkur-verkefnið, afskriftum námslána fyrir fólk sem býr og vinnur á aðgerðarsvæðinu, lægri tekjuskatti og hærri barnabótum.

Öll íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni

Stóru drættirnir í íbúaþróuninni frá 1998 er að þjóðinni fjölgaði um 92.000 manns eða 34%. Fjölguninni er mjög misdreift. Á Suðurnesjum fjölgaði um 78%, á höfuðborgarsvæðinu um 41% og á Suðurlandi um 34%. Á Austurlandi og Norðurlandi eystra varð fjölgun um tæp 8% og á Vesturlandi fjölgaði íbúum um 20%. Hins vegar varð fækkun íbúa á Norðurlandi vestra um 11% og um 17% á Vestfjörðum.

Stærð höfuðborgarsvæðisins á Íslandi mælt íhlutfallslegum íbúafjölda er tvöfalt meira og jafnvel ríflega það  en gerist á hinum Norðurlöndunum. Á Íslandi býr 64% þjóðarinnar á höfuðborgarsvæðinu, 36% í danmörku, 30% í Noregi og 26% í Finnlandi.