Vesturbyggð: væntingar um fjármagn með þjóðgarði

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að Vesturbyggð telji að mikil tækifæri liggi í stofnun Þjóðgarðs á sunnanverðum Vestfjörðum. „Við sjáum mörg spennandi tækifæri vegna aukinnar innviðauppbyggingar á þessu svæði, eins og í Vatnsfirði. Þá er sem dæmi mörg tækifæri í friðlandinu í Vatnsfirði m.a. til að gera nátturu svæðisins betri skil með fræðslu sem og gera merkri sögu svæðisins hærra undir höfði, fyrir þá ferðmenn sem leggja leið sína á Vestfirði.“

Tækifæri til uppbyggingar

Rebekka nefnir einnig að tækifæri felist í uppbyggingu gestastofa og fræðslumiðstöðvar, m.a. á Brjánslæk og í Vatnsfirði en skv. deiliskipulagi í Vatnsfirði er gert ráð fyrir uppbyggingu gestastofu.

Þjóðgarðurinn mun, að sögn Rebekku,  væntalega efla starfsemi Umhverfisstofnunar á sunnanverðum Vestfjörðum og þar verði unnt að skapa fleiri heilsársstörf.

Stjórntæki – fjármagn óljóst

„Með stofnun þjóðgarðsins verðum við líka komin með öflug stjórntæki til að bæta aðgegni að og innan svæðisins og búa svæðið betur undir að taka á móti fjölda ferðamanna. Þá verður stofnun þjóðgjarðsins góð viðbót við þá afþreyingarmöguleika sem eru á sunnanverðum Vestjförðum, sem mun vonandi skila sér í fleiri ferðamönnum og auknum tekjum m.a. fyrir ferðaþjóna á svæðinu. Verkefnið er enn skammt á veg komið og ekki ljóst hvaða fjármagn verði um að ræða, en ljóst er að fjármagn þarf að koma til, svo unnt sé að fara í nauðsynlega innviðauppbyggingu á svæðinu og koma upp gestastofnum og fræðslumiðstöðvum.“

DEILA