Ný bók um sláturfélagið Örlyg við Patreksfjörð

Samvinnufélag í hálfri sveit. Í vesturhluta Rauðasandshrepps starfaði lítið kaupfélag, Sláturfélagið Örlygur, á miðhluta síðustu aldar.

Út er að koma rit sem segir sögu þess, eftir því sem til hefur náðst af skrásetjara, Sigurjóni Bjarnasyni, sem ólst upp í Hænuvík um þetta leyti.

Í stuttu máli má segja söguna á þennan hátt: Í kreppunni í kringum 1930 tóku nokkrir bændur vestast á Íslandi sig saman um að markaðssetja sauðfjárafurðir sínar í von um bætt kjör eftir misjafnt gengi og áföll. Byrjað var með stofnun félags um byggingu og rekstur sláturhúss á Gjögrum í Örlygshöfn árið 1931.

Þungt var fyrir fæti fyrstu árin en úr rættist þegar byrjað var að taka við pöntunum á nauðsynjavörum til greiðslu á innleggi. Reksturinn varð síðar all blómlegur, nýtt sláturhús var byggt eftir 1960 og verslun rekin af myndarskap, síðast með kjörbúðarsniði.

Sláturfélagið Örlygur var stolt byggðarlagsins „sverð þess og skjöldur“. Þetta er hetjusaga af fólki í afskekktri byggð sem stóð saman um mikilvæga þjónustu undir kjörorðinu: Meira vinnur vit en strit.

DEILA