Loka þarf golfvöllum landsins

Í frétt frá Golfsambandi Íslands segir að í framhaldi af upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar á föstudag, þar sem tilkynnt var um hertar aðgerðir í sóttvörnum óskaði viðbragðshópur GSÍ eftir nánari útskýringum á því hvort 6. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar eigi við um golfiðkun.

Að mati hópsins er ekki nægur samhljómur á milli þess að segja annars vegar að íþróttir (þar með talið æfingar og keppni) utandyra án snertingar séu óheimilar og hins vegar leyfa „einstaklingsbundnar æfingar án snertingar, svo sem útihlaup eða sambærilega hreyfingu“.

Svar Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra til GSÍ er afdráttarlaust.

Þeir segja að golf falli undir það ákvæði að allar æfingar og keppnir í íþróttum séu nú óheimilar.

Núverandi ástand kallar á harðar aðgerðir og því mikilvægt að engin reyni að túlka reglur með þeim hætti að hann sé undanþeginn.

Það þarf að hægja á allri starfsemi í samfélaginu, minka samneyti og óþarfa ferðir fólks. Það að leyfa að spila golf þó að aðeins einn sé á hverri braut er ekki í anda aðgerðanna.

Samkvæmt þessu ber að loka golfvöllum landsins.