Kastalinn í Sviðnum

Myndin sem hér fylgir með var mynd mánaðarins hjá Þjóðminjasafni Íslands í júlí 2018 en þá voru 100 ár síðan Hjálmar R. Bárðarson ljósmyndari og verkfræðingur fæddist á Ísafirði.

Þann 11. ágúst 1991 var Hjálmar staddur í Sviðnum á Breiðafirði, eyjaklasa sem tilheyrir svokölluðum Inneyjum.

Þar myndaði hann þessa manngengu vörðu á svokölluðum Kastala í Bæjareynni í Sviðnum, en hún var upphaflega byggð af Ólafi Teitssyni (1810-1892) bónda í eyjunni. Úr vörðunni var hægt að sjá yfir alla landareign Sviðnubónda. Þá eru heimildir fyrir því að hún hafi einnig verið notuð sem þurrkhjallur.

Örnefnið Sviðnur þykir ef til vill sérstakt. Nokkrar kenningar eru um hvernig nafnið er til komið. Talið er að á eyjunum hafi verið þéttur skógur, sem kveikt hafi verið í til að koma fyrir bæjarhúsum og beitilöndum. Eldurinn hafi farið úr böndunum og af því dragi eyjarnar nafn sitt. Þá er tilgáta um að þær beri nafn sitt af saltbrennslu. Þriðja tilgátan er að eyjarnar dragi nafn sitt af fiskimiði suður af eyjunum sem kallast Svið. Sú skýring hefur gengið á milli ábúenda eyjunnar. Byggð lagðist af í eyjunum árið 1956, er bæjarhúsin brunnu.