Hvað finnst Vestfirðingum um fiskeldi og samgöngur?

Vestfjarðastofa stendur fyrir viðhorfskönnun um fiskeldi og samgöngumál á Vestfjörðum.  Markmið könnunarinnar er að fá fram væntingar og viðhorf Vestfirðinga í þessum mikilvægu málaflokkum. Þetta er einn liður í stóru verkefni hjá Vestfjarðastofu um mótun framtíðarsýnar í fiskeldi.

Stefnt er að því að endurtaka könnunina á tveggja ára fresti næstu ár til að fylgjast með mögulegum breytingum á væntingum og viðhorfum í þessum tveimur málaflokkum eftir því sem þeir munu þróast á næstu árum.  Könnunin er nafnlaus og verða niðurstöður nýttar meðal annars í stefnumótun sveitarfélaga og svæðisins alls.

Könnunin er á íslensku, ensku og pólsku svo að sem flestir Vestfirðingar geti tekið þátt.

Guðrún Anna Finnbogadóttir, verkefnisstjóri hjá Vestfjarðastofu  hvetur alla sem fá könnunina senda í tölvupósti til að taka þátt og hafa með skoðunum sínum áhrif á framtíð Vestfjarða.

Nánari upplýsingar um framkvæmd könnunarinnar er að fá hjá Guðrúnu Önnu  í netfanginu gudrunanna@vestfirdir.is.