Hár meðalaldur á Vestfjörðum

Bíldudalshöfn.

Meðalaldur í átta sveitarfélögum á Vestfjörðum af níu er hærri en landsmeðaltalið. Þetta kemur fram í talnagrunni Byggðastofnunar. og byggir á upplýsingum frá 2019.

Meðalaldur landsmanna er 37,6 ár. Aðeins í Tálknafjarðarhreppi er meðalaldurinn lægri en þar er hann 37,0 ár.  Lægstur er meðalaldurinn á sunnanverðum Vestfjörðum, 37,0 ár í Tálknafirði og 37,8 ár í Vesturbyggð.

Meðalaldur 44,3 ár í Strandasýslu

Hæstur er meðalaldurinn í Strandasýslu. Í Árneshreppi er meðalaldurinn 57,4 ár og er það næsthæsti meðalaldurinn á landinu næst á eftir Tjörneshreppi. Í Kaldrananeshreppi er meðalaldurinn 46,3 ár og 42,7 ár í Strandabyggð. Er líklegt að meðalaldurinn 44,3 ár sé langhæstur í Strandasýslu af öllum sýslum landsins.

Á norðanverðum Vestfjörðum er meðalaldurinn rétt um 39 ár. Í Ísafjarðarbæ og í Súðavík 39,2 ár og 38,5 ár í Bolungavík. Í Reykhólahreppi er meðalaldurinn 38,5 ár.

Veruleg fólksfækkun í 20  ár

Í stöðugreiningu um Vestfirði, sem Byggðastofnun gaf út fyrr á þessu ári segir:

„Þrátt fyrir verulega fækkun íbúa síðastliðin 20 ár á Vestfjörðum hefur íbúum á
Vestfjörðum sem eru 50 ára og eldri fjölgað verulega, sérstaklega 50-59 ára og
60-69 ára. Þetta hefur gerst á meðan íbúum í yngri aldurshópunum hefur
fækkað verulega. Þetta á bæði við um karla og konur.
Allra síðustu ár hefur fólksfækkun í yngri aldurshópunum ýmist stöðvast og
jafnvel snúist við. Greina má fjölgun meðal karla í aldurshópunum frá 20 ára til
49 ára en að fækkun kvenna í þessum aldurshópum hafi stöðvast.“

 

 

 

DEILA