Vesturbyggð: framkvæmdaleyfi veitt fyrir Dynjandisheiði

Af Dynjandisheiði.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar samþykkti í gær framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðaveg 60 um Dynjandisheiði 5,7 km leið.

Um var að ræða erindi Vegagerðarinnar frá 10. júlí 2020 þar sem sótt er um framkvæmdaleyfi til Vesturbyggðar fyrir byggingu Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði um Penningsdal ofan við Pennuá og upp fyrir Þverdalsvatn.

Álit Skipulagsstofnunar um heildarframkvæmdina liggur fyrir dagsett 3. júlí 2020. Í umsókninni er einungis verið að sækja um leyfi fyrir hluta framkvæmdar sem er í samræmi við gildandi aðalskipulag Vesturbyggðar 2006-2018 og er óháð þeim valkostum sem lagðir hafa verið fram um Vatnsfjörð og Flókalund upp Penningsdal. Efni í framkvæmdina verður sótt í skeringar og meðfram vegi.

Tilboð í framkvæmdina voru opnuð í fyrradag eins fram kom á Bæjarins besta í gær og var lægsta tilboð 1,7 milljarðar króna frá Borgarverki ehf,  sem er 13% hærri en kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

DEILA