Minningargrein Lára Hafliðadóttir

Nú er Lára frænka mín hnigin til foldar og þar með markast þau tímamót sem þó óhjákvæmilega verða að kynslóðin á undan okkur er öll farin á vit feðra sinna. Systkinin sem ólust upp í Ögri við Ísafjarðardjúp á tímum sem eru svo ólíkir því sem við þekkjum í dag að erfitt er útskýra muninn og enn erfiðara að skilja hann.

Lára var elsta systkinið af sjö. Guðríður dó ung, rétt rúmlega tvítug, lítill drengur dó þriggja daga gamall. Pabbi minn sem var annar í röðinni á eftir Láru og systur þeirra náðu fullorðinsaldri en Ása sem var yngst dó fyrir sextugt.

Lömunarveikin hjó skarð sitt í systkinahópinn með fráfalli Guðríðar og Lára þurfti sem ung kona að glíma við þessa hryllilegu veiki. Sú glíma setti mark sitt á allt líf hennar en hún barðist fyrir sínu og vildi helst enga aðstoð. Sagðist geta unnið fyrir sér og sínum og gerði það allan sinn vinnualdur. Lengst af í félagsmálaráðuneytinu. En mér fannst baráttan einkenna líf hennar Láru frænku minnar alla tíð. Ef ég spurði hana hvort hún tæki þennan eða hinn hlutinn ekki of alvarlega sagði hún að svona væri þetta bara og sér væri sama hvað öðrum þætti um það. Í slíkum tilsvörum minnti hún mig oft á pabba minn, bróður hennar, en á milli þeirra voru sérstök systkinabönd.

Mínar fyrstu minningar af Láru frænku minni eru úr Ögri þá sjaldan að hún gat komið þangað í heimsókn til mömmu sinnar, ömmu minnar. Síðan til foreldra minna sem tóku við jörðinni. Svo á hennar heimili á Háaleitisbrautinni. Þar giltu ákveðnar reglur sem manni skildist fljótt að rétt væri að framfylgja. Það er misjafnt hvernig fólk setur fram umhyggju sína því sumum er það auðvelt en öðrum ekki. Lára hafði sinn háttinn á því og það nægði mér. Þess vegna fannst mér alltaf gott að hitta hana, segja henni frá og hlusta á hana segja sögur úr uppvextinum í Ögurvíkinni, fyrst á Garðstöðum og svo á ættaróðalinu Ögri sem í dag er í eigu okkar systkinanna, næstu kynslóðar sem ólst þar upp. Láru var umhugað um að þannig yrði það og að Ögur tilheyrði okkar fjölskyldu.

Lára hélt sínu góða minni mjög lengi og gat miklu meira en henni var ætlað þegar hún veiktist á sínum tíma. Hún bjó lengst af ein en var síðustu mánuðina á Droplaugarstöðum. Svanhvít dóttir hennar sinnti henni af þvílíkri umhyggju og þolinmæði að það er aðdáunarvert og í raun ólýsanlegt hversu mikið hún gat sinnt móður sinni.

Síðasta daginn sem hún Lára frænka mín lifði sat ég hjá henni um stund. Ég reiknaði með að hún heyrði og skildi allt sem ég sagði þó ekki gæti hún gefið það til kynna. Ég sat hjá henni og talaði út í eitt um Ögur og kom inn á sögurnar sem hún og pabbi sögðu mér og okkur systkinum. Og ég kvaddi frænku mína með þeim orðum að við sæumst heima í Ögri.

Að hennar ósk verður hinsta hvíla í Ögurkirkjugarði nálægt foreldrum sínum og mörgum öðrum ástvinum. Heima í Ögri.

Halldór Halldórsson

 

DEILA