Skaginn 3X semur við rússnesk og suðurkóresk fyrirtæki

Skaginn 3X hefur skrifað undir stóra söluhönnunarsamninga við rússnesk og suðurkóresk fyrirtæki sem hyggjast nútíma- og sjálfvirknivæða fiskvinnslu sína til að auka hagræðingu, gæði og afrakstur. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Leiðandi rússnesk sjávarútvegsfyrirtæki hefja samstarf við Skagann 3X

Rússnesku sjávarútvegsfyrirtækin Magadanryba og Yuzhno-Kurilskiy Rybokombinat sem bæði eru leiðandi á sínu sviði gerðu nýverið ráðgjafasamning við Skagann 3X sem snýr að þróun hugvitsamlegra lausna í sjálfvirknivæðingu fiskvinnslu fyrirtækjanna. Breytingar á vinnumarkaði, auknar kröfur um skilvirkni og afrakstur ásamt betri vöru eru meðal þeirra þátta sem knýja fram aukna sjálfvirkni og nútímavæðingu í geiranum.


„Góður árangur í nýlegum verkefnum okkar í landvinnslu fyrir rússnesku fiskvinnslufyrirtækin JSC Gidrostroy og V.I. Lenin hefur orðið til þess að við erum nú mikilvægur samstarfsaðili margra fyrirtækja bæði í Rússlandi og Asíu sem sækjast eftir að sjálfvirknivæða ferla og þróa nýjar og nútímalegar vinnslustöðvar,“ segir Arnar Friðrik Albertsson yfirmaður söluhönnunar Skagans 3X. „Sjálfvirkni, bætt vinnuvistfræði og skilvirkari vinnsla á stærri skala eru allt sérfræðisvið Skagans 3X og hafa verið um áratuga skeið.“

Sérfræðingar Skagans 3X koma að hönnun úthugsaðra vinnsluferla og -búnaðar sem má skala upp, allt frá upphafi þróunarferlisins. Allt er þetta byggt á nýjustu þekkingu og bestu starfsvenjum sem eru svo aðlöguð að þörfum hvers viðskiptavinar fyrir sig.
„Það er mikilvægt fyrir vinnslurnar að fá réttu ráðgjöfina strax í upphafi og koma þannig í veg fyrir vandamál þegar fram í sækir. Það er bæði kostnaðarlega hagkvæmt og skilvirkt,“ segir Valeriy Akbashev, fulltrúi Skagans 3X í Rússlandi sem hefur verið í lykilhlutverki við kynningu þjónustunnar. „Með því að undirrita samning við Skagann 3X fá fyrirtæki í sjávarútvegi aðgang að hafsjó af upplýsingum og þekkingu í þróun og innleiðingu nútímalegra, skalanlegra vinnslulausna sem skila auknum afrakstri, gæðum og vinnsluhraða.“

Háþróaðasta fiskvinnsla Suður-Kóreu

Hyeseung Fisheries í Suður-Kóreu hefur einnig gert samning við Skagann 3X um aðstoð við þróun nýrrar fiskvinnslu sem stefnt er að að verði háþróaðasta landvinnslan á þessu svæði. Suður-Kórea fylgir svipuðum straumum og Rússland þar sem sífellt fleiri fyrirtæki leggja áherslu á að bæta og sjálfvirknivæða verkferla. Aukin samkeppni á innanlands- sem og útflutningsmörkuðum hefur ýtt undir þessar breytingar ásamt vexti í greininni.
„Nýi samningurinn við Hyeseung Fisheries lofar góðu og verður spennandi verkefni fyrir sérfræðinga okkar í fiskvinnslu,“ segir Arnar. „Þetta er teymi sem hefur þróað og innleitt stórar og flóknar heildarlausnir og það verður ánægjulegt fyrir okkur að taka þátt í að hanna þessa tímamóta vinnslustöð.“

Sérsniðin vinnsla og hágæðakröfur

Enginn af þessum samningum er eins þannig að nálgast þarf hvern og einn á sérsniðinn hátt og með miklum sveigjanleika í hönnunarferlinu. „Þegar þessir samningar breytast í sölusamninga verður uppsafnað virði þeirra vel yfir 40 milljón evrum.“ segir Arnar. „Fjölbreyttur bakgrunnur, menntun, reynsla og samheldni verkfræðiteymisins er það sem gefur Skaganum 3X það forskot sem þarf til þess að skila viðskiptavininum nákvæmlega því sem hann þarf. Hver svo sem áskorunin er vinnur teymið okkar náið með viðskiptavininum að frumlegum, mjög sjálfvirkum lausnum sem ekki einungis færa þá inn í framtíðina heldur gera það af öryggi.“