Patreksfjörður: vel heppnuð sjómannadagshátíðahöld

Sjómannadagshátíðahöldin á Patreksfirði hafa um langt skeið verið þau veglegustu á Vestfjörðum. Hafa þau staðið í fjóra daga og verið mjög fjölsótt. Að þessu sinni setti kórónaveiran strik í reikninginn og draga varð úr umfangi hátíðahaldanna vegna takmarkandi aðgerða yfirvalda. Engu að síður fóru hátíðahöldin fram og voru eins fjölbreytt og aðstæður leyfðu. Þau þóttu vel heppnuð og fóru fram í góðu veðri.

Á fimmtudaginn fór skútuhlaupið fram sem er skemmtiskokk fyrir börn og fullorðna og allir þátttakendur fá verðlaun.

Meðal atriða á föstudeginum voru tónleikar Gísla Magna sem flutti lög afa síns Steingríms Sigfússonar, sem var skólastjóri um árabil á Patreksfirði og organisti við Stóra Laugardalskirkju á Tálknafirði. Sigfús samdi fjöldann allan af lögum og tónverkum sem hann samdi á ferli sínum. Mörg þessara laga eru þjóðkunn og eru leikin og sungin við ýmis tækifæri. Einnig samdi og útsetti Steingrímur marga sálma og kirkjutónlist sem mikið er spiluð og sungin. Hann samdi og útsetti fjölmörg söng- og kórlög og hafa margir kórar flutt lög hans og texta. Þá skrifaði Steingrímur spennusögur undir skáldanafninu Valur vestan. Steingrímur var frá Stóru Hvalsá í Hrútafirði og var jarðsettur í Prestbakkakirkju.

 

Á laugardaginn voru atriði eins og kökubasar kvenfélagsins Sifjar sem kom í stað sjómannadagshlaðborðsins. Þá var  sjávarréttargrill og bændamarkaður á nýjum veitingastað FLAK. Þar verða haldnir a.m.k. sex tónleikar í sumar.

Vestri BA fór með gesti í siglingu um Patreksfjarðarflóann í sól og brakandi blíðu.

Í sjómannadagsmessunni í gær komu að venju kór sjómanna og að athöfn lokinni voru lögð blóm á alla þrjá minnisvarða sjómanna á Patreksfirði, þann íslenska, franska og breska með viðeigandi þjóðfánum.

Guðrún Anna Finnbogadóttir tók myndirnar.

 

DEILA