Dynjandi: sveitarfélög óttast friðlýsingu

Kort sem Umhverfisstofnun hefur gert af svæðinu.

Fram kemur í fundargerð frá 22. apríl  samstarfshóps um friðlýsingu á svæði Dynjanda , sem skipaður er fulltrúum Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar auk fulltrúa Umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar, að  að hræðsla er við að framkvæmdir verði takmarkaðar, svo sem veglagning. Hjá þeim sé áhugi á þjóðgarðshugmynd, en þau setja spurningarmerki við orðalag í náttúruverndarlögum um þjóðgarðar þar sem stendur að athafnir og framkvæmdir séu bannaðar.

Er þetta í samræmi við þá afstöðu sem fram kom í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar í síðustu viku.

Fram kom hjá fulltrúa Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á fundi samstarfshópsins að í frumvarpi að nýjum lögum um þjóðgarðastofnun og þjóðgarða væri þetta ákvæði mildað. Hægt að leysa með því að skoða hvað stendur til á svæðinu og vinna með það í friðlýsingarskilmálum. Fulltrúi Umhverfisstofnunar benti á að friðlýsingin eigi ekki að stöðva nauðsynlegar framkvæmdir.

Fulltrúi Ísafjarðarbæjar, Bryndís Ósk Jónsdóttir bæjarritari  tók undir það að friðlýsingin eigi alls ekki koma í veg fyrir að hægt sé að halda áfram með uppbyggingu vega á svæðinu. Fulltrúi Vesturbyggðar, Rebekka Hilmarsdóttir bæjarstjóri  benti á að almennt litist fólki betur á það að svæðið sé þjóðgarður og friðlönd innan hans heldur en að allt svæðið yrði friðland þar sem væru mögulega meiri takmarkanir.

Sú spurning, segir í fundargerðinni,  kom upp hvort ákveðið fjármagn muni fylgja því að svæði verði þjóðgarður. Fulltrúi Umhverfisráðuneytisins benti á að svæðið væri forgangsmál hjá ráðherra og því mætti ætla að þar fylgi hugur máli m.t.t. fjármagns. Fulltrúi Umhverfisstofnunar mun leita upplýsinga um það.

Þá segir í fundargerðinni:
„Rætt var nánar um vegalagningu þar sem fram kom að það er ekkert sem að bannar vegalagningu innan þjóðgarða nema þeir skerði verulega ásýnd eða verndargildi. Ekki liggur fyrir niðurstaða um staðsetningu veglína á svæðinu sbr. skýrslu Vegagerðarinnar.
Rætt var nánar um friðlýsingarflokk svæðisins, en fulltrúar sveitarfélaganna óska eftir frekari upplýsingum um muninn á flokkunum og hugsa málið betur áður en að afstaða er tekin. Aðalatriðin séu samgöngur, vegir og uppbygging á svæðinu.“

Hluti af korti Umhverfisstofnunar, sem skýrir merkingarnar.

DEILA