36 m.kr. styrkur til ljósleiðaravæðingar á Vestfjörðum

Styrkjum í tengslum við landsátakið Ísland ljóstengt var úthlutað í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Haraldur Benediktsson, varaformaður fjarskiptasjóðs skrifuðu undir samninga við sveitarfélög og Neyðarlínuna.

Fjarskiptasjóður úthlutað í gær 400 milljónum króna til átakins Ísland ljóstengt. Þessu til viðbótar leggur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið til 43 milljónir kr. sem framlag úr byggðaáætlun. Samtals var því úthlutað 443 milljónum króna til verkefnisins.

Fjárveitingin nú er liður í sérstöku tímabundnu fjárfestingarátaki stjórnvalda fram á næsta vor, til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Fjögur vestfirsk sveitarfélög fengu styrk í þessari fimmtu úthlutun Fjarskiptasjóðs og fjórðu úthlutun úr fjármagni byggðaáætlunar. Rúmar 19 milljónir króna koma í hlut Vestfirðinga úr Fjarskiptasjóði og 17 milljónir króna úr byggðaáætlun. Samtals nemur styrkfjárhæðin 36, 5 milljónir króna.

Árneshreppur fékk 3 milljónir króna úr byggðaáætlun. Ísafjarðarbær fékk 3 milljónir króna úr Fjarskiptasjóði og 2 milljónir króna frá byggðaáætlun. Kaldrananeshreppur fær 9,5 milljónir króna úr Fjarskiptasjóði og 8 milljónir króna úr byggðaáætlun. Loks fær Vesturbyggð 7 milljónir króna frá Fjarskiptasjóði og 4 milljónir króna frá byggðaáætlun.

Í Ísafjarðarbæ er ætlunin að leggja ljósleiðara í Önundarfirði frá Hjarðardal út í Valþjófsdal og mun strengurinn ná að Tungu. Orkubú Vestfjarða mun nota sama skurð til þess að leggja þriggja fasa rafstreng.

„Við erum óðfluga að nálgast takmark okkar að leggja ljósleiðara um nánast allt dreifbýli landsins. Með viðbótarfjárveitingu í ár er unnt að flýta slíkum framkvæmdum enn frekar. Verkefnið Ísland ljóstengt er ein af lykil forsendum búsetugæða, atvinnusköpunar og samkeppnishæfni landsins alls,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Ísland ljóstengt er tímabundið landsátak ríkisins og sveitarfélaga í ljósleiðarauppbyggingu utan markaðssvæða í dreifbýli. Markmið átaksins, sem er eitt af áherslumálum ríkisstjórnarinnar, er að tryggja nær öllum lögheimilum og fyrirtækjum á slíkum svæðum, aðgang að ljósleiðaratengingu.

Verkefnið hófst formlega vorið 2016.  Stefnt er að lokaúthlutun á grundvelli Ísland ljóstengt á næsta ári.

DEILA