Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hefur hækkað um 50% frá 2010 samkvæmt því sem fram kemur í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans frá 25. maí. Verðið hélt áfram að hækka á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og hefur hækkað samfleytt 10 fjórðunga í röð. Verðhækkunin að þessu sinni nam 0,7% miðað við fjórða fjórðung síðasta árs. Verð sjávarafurða í erlendri mynt er nú í sögulegu hámarki.
Til samanburðar er heimsmarkaðsverð á kjöti um 20% hærra en það var fyrir 10 árum.
Verðbólga í Evrópusambandinu síðustu 10 ár er 13,5%. Að teknu tilliti til verðbólgu hefur verð íslenskra sjávarafurða hækkað um 32% að raungildi á síðustu 10 árum. Þetta þýðir að verðið fyrir neytandann í Evrópu hefur hækkað umfram verðlag sem þessu nemur.
Heildaráhrifin af háu verði sjávarafurða erlendis síðustu ár eru þau að útflutningsverðmætið hefur vaxið þrátt fyrir töluverðan samdrátt í útflutningi í tonnum talið.
