Bæjarráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að byggja fjórar íbúðir á Bíldudal í samvinnu við fyrirtækið Nýjatún ehf. Er það í tengslum við tilraunverkefni ríkisins um byggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni.
Sótt verður um 18% stofnframlag frá ríkinu sem nemur 20,7 milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá Rebekku Hilmarsdóttur, bæjarstjóra. Til viðbótar verður sótt um 4% svonefnt byggðaframlag sem er 15,9 milljónir króna.
Á móti framlagi ríkisins verður framlag Vesturbyggðar 12% eða 13,4 milljónir króna. Búist er við því að umsókn Vesturbyggðar verði afgreidd í júlí.
Í umsókn Vesturbyggðar kemur fram eftirfarandi rökstuðningur:
“Til að stoppa þá miklu stöðnun sem orðið hefur í byggingu íbúðarhúsnæði á Bíldudal og til að auka líkur á að frekari atvinnuuppbygging geti átt sér stað í samræmi við framtíðaráform þeirra fyrirtækja sem eru með rekstur á Bíldudal er nauðsynlegt að veitt verði framlög til þessa verkefnis.”