Sjö Strandamenn í Vasagöngu

Sjö keppendur frá Skíðafélagi Strandamanna lögðu land undir fót  til Svíþjóðar um daginn og tóku þátt í Vasagöngunni, 90 km göngu frá bænum Sälen í Svíþjóð til bæjarins Mora.

Gangan, sem dregur nafn sitt af frækilegri skíðagöngu Gustavs Eriksson Vasa Svíakonungs árið 1521. Gustav Vasa var á flótta til Noregs undan óvinum sínum, einkum Dönum sem réðu Kalmarsambandinu. Danir létu þá drepa í Stokkhólmi andstæðinga sína. Það varð til þess að mikil reiði varð meðal Svía og þeir sendu menn til að ná til Gustav Vasa og snúa honum við og fá hann til þess að leiða baráttuna gegn Dönum og Kalmarsambandinu. Sendimennirnir náðu Gustav Vasa í Sälen og er ekki að orðlengja að hinn sænski aðalsmaður sneri þegar við og gekk af miklum röskleik til Mora, hóf baráttuna  og hafði svo sigur tveimur árum síðar.

Bændaganga Strandamanna

Rósmundur Númason var í sinni áttundu Vasagöngu og lét vel af henni. Sagði hana ekki hafa verið eins erfiða og í fyrra þegar færið var mjög erfitt. Með Rósmundi voru fjórir vaskir bændur. Ágúst Helgi Sigurðsson, Stóra Fjarðarhorni í Kollafirði og tveir úr Reykhólasveitinni, þeir Vilberg Þráinsson, Hríshóli og Hjalti Helgason, Garpsdal. Þá var fjórði bóndinn Ragnar Bragason, Heydalsá og sonur hans Stefán Ragnarsson.  Rósmundur sjálfur er svo bændasonur frá Gilsstöðum í Selárdal þar sem Strandagangan var haldin um síðustu helgi. Verður það að teljast óvenjulegt hvað bændur gerðu sig  gildandi í sveit Strandamanna í Vasa skíðagöngunni. Sjöundi göngumaðurinn var Jón Eðvald Halldórsson frá Hólmavík.