Gallerí úthverfa Ísafirði: Sigrún Rósa opnar sýningu í dag

Föstudaginn 13. mars kl. 17 opnar Rósa Sigrún Jónsdóttir sýninguna AF JÖRÐU / FROM EARTH í Úthverfu á Ísafirði að Aðalstræti 22.

,,Einkenni vestfirskra fjalla er lagskiptingin. Hraunlag hlóðst ofan á hraunlag í gosum um milljónir ára. Milli gosa myndaðist svo jarðvegur sem að miklu leyti er gjall, áfok og  plöntuleifar.  Þessi jarðvegur oxaðist og myndaði rauðu millilögin sem kallast laterít og prýða fjöllin víða. Svo kom ísöldin og skar sundur landið eins og lagtertu svo innviðir landsins urðu okkur sýnilegir. Ég hef lengi horft á þessi lagskiptu fjöll. Ég hef líka lengi gert innsetningar þar sem textílskúlptúrar eru strekktir með þráðum út í rýmið. Ég hef líka verið að vinna með íslenskar plöntur, einkum lækningajurtir, þar sem ég hef gert nokkurs konar þrívíð málverk, heklað plönturnar úr hvítu garni, stífað þær með lími og að síðustu málað. Á þessari sýningu í Úthverfu er ég að gera tilraunir með nýjar aðferðir, þó byggðar á fyrrgreindum grunni. Fyrir mér rennur allt í eitt; plönturnar, rýmið og jarðlögin. Plönturnar vaxa út í rýmið og taka lit sinn úr þeim jarðvegi sem þær spretta úr.  Hér geri ég tilraunir með að vinna mismunandi litaduft úr vestfirskum fjöllum og mála textílinn með eggtemperu. Þannig finnst mér  þetta vera einhvers konar hringrás. Vangaveltur mínar um lagskiptingu fjallanna birtist svo í  tilraunum með „málverk“ sem unnin eru með eggtemperu og litadufti sem sótt er í fjöllin.‘‘

Rósa Sigrún Jónsdóttir útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands 1987 og Listaháskóla Íslands 2001. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og erlendis og tekið þátt fjölmörgum samsýningum. Rósa var formaður Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík í fjögur ár auk þess að vera fulltrúi SÍM í Listskreytingasjóði og sitja sem varmaður í stjórn félagsins.

 

Verið velkomin á opnun sýningarinnar á föstudaginn. Léttar veitingar í boði.

Sýningin stendur til sunnudagsins 5. apríl 2020.