Bolungavík: nýtt heimili fyrir fatlaðan einstakling

Fyrir skömmu var tekið í notkun nýtt heimili í Bolungavík fyrir langveikan einstakling Eyþór Inga Falsson. Er það í gamla Sjúkrahúsinu, þar sem áður var íbúð læknis. Falur Þorkelsson faðir Eyþórs Inga sagðist vera ánægður með alla aðstöðu en sagði að það tæki tíma að þjálfa starfsfólk. Eyþór Ingi  nýtur þjónustu frá félagsþjónustunni í Bolungavík og dvelur ásamt starfsmanni í Hvestu á Ísafirði yfir dagtímann.

Fram á síðasta ár var þjónustan veitt frá Ísafjarðarbæ, en þjónustunni var sagt upp með stuttum fyrirvara.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að Bolungavíkurkaupstaður stæði að framkvæmdunum en fengi stuðning að hluta til frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Þjónustan, sem veitt er, er á vegum kaupstaðarins samkvæmt þjónustusamningi við Byggðasamlag sveitarfélaganna á Vestfjörðum um málefni fatlaðra.

Myndir: Halla Signý Kristjánsdóttir.