Norðvesturkjördæmi: Miðflokkurinn hástökkvarinn – Vg tapa mestu

Bergþór Ólason er oddviti Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur mest fylgi í Norðvesturkjördæmi samkvæmt sérgreiningu Gallup á fylgi flokkanna sem gerð var fyrir Bæjarins besta.

Flokkurinn mælist með 22,2% fylgi. Miðflokkurinn kemur fast á hæla Sjálfstæðisflokksins með 20,1% fylgi og hefur bætt við sig 5,9% frá alþingiskosningunum 2017. Er Miðflokkurinn hástökkvarinn í fylgisaukingu í kjördæminu. Framsóknarflokkurinn er í þriðja sæti með 15,1% fylgi og missir 3,3% frá síðustu kosningum. Fylgistapið veldur því að flokkurinn missir annan kjördæmakosna þingmanninn sinn og fær einn mann kjörinn.

Vinstri grænir mælast í fjórða sæti með 11,3% og tapa 6,5% af fylginu frá 2017. Þeir tapa mestu allra flokka frá alþingiskosningunum 2017.

Píratar bæta við sig 2,9% og fá 9,7% fylgi í könnuninni  sem dugar þeim til þess að hreppa kjördæmakosinn þingmann.

Samfylkingin tapar 0,3% og fá 9,4% í könnun Gallup. Fyrir vikið missir Samfylkingin kjördæmakosna þingsætið sem flokkurinn hefur nú.

Aðrir flokkar eru langt frá því að vinna þingsæti. Viðreisn mælist með 4,6%, Flokkur fólksins 4,3% og Sósíalistaflokkurinn 3,0%. Aðrir fá 0,3% fylgi.

Miðflokkur og Píratar vinna þingsæti

Þegar deilt er út kjördæmasætunum 7 milli flokkanna þá fær Miðflokkurinn 2 þingsæti og vinnur eitt. Píratar fá eitt en hafa ekkert. Framsóknarflokkurinn tapar öðru sæti sínu og Samfylkingin tapar sínu. Sjálfstæðisflokkurinn fær 2 sæti eins og áður og Vinstri grænir halda sínu sæti.

Jöfnunarþingsætinu er úthlutað í kjördæminu með hliðsjón af úrslitum á landsvísu og því ekki hægt að fullyrða neitt um það hvaða flokkur myndi hreppa það. Þó má segja að líklegustu kandidatarnir séu annað hvort 2. maður Framsóknarflokksins eða efsti maður Samfylkingarinnar.

Könnun var netkönnun framkvæmd frá 28. október 2019 til 2. febrúar 2020. Í úrtaki voru 2.501 og 1.317 svöruðu. Svarhlutfall var 52,7%. Spurðir voru einstaklingar búsettir í Norðvesturkjördæmi, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Gögn rannsóknarinnar eru vigtuð til þess að úrtak endurspegli þýði með tilliti til kyns, aldurs og búsetu.

 

DEILA