Starfshópur sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að framtíðarskipulagi sjúkraflutninga á Íslandi í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030 hefur skilað ráðherra niðurstöðum sínum. Meginniðurstaða hópsins er að umsjón með sjúkraflutningum á landinu öllu þurfi að vera á einni hendi. Lagt er til að sett verði á fót miðstöð bráðaþjónustu og sjúkraflutninga (MBS) sem hafi víðtækt hlutverk með það að markmiði að samræma þjónustuna, veita faglegan stuðning, annast þjálfun og þróun fagstétta á þessu sviði og sinna gæðaeftirliti.
Hópnum var samkvæmt skipunarbréfi falið að gera tillögur sem snúa að mönnun, menntun, þjálfun og endurmenntun þeirra sem sinna sjúkraflutningum, fjalla um þjónustuviðmið, gæðamælikvarða og eftirlit með sjúkraflutningum og einnig um faglegan stuðning með notkun fjarheilbrigðistækni. Eins skyldi hann endurskoða greiðslufyrirkomulag vegna sjúkraflutninga til samræmis við markmið þjónustunnar.
500 m.kr. miðstöð
Starfshópurinn telur nauðsynlegt að komið verði á sérstakri miðstöð um bráðaþjónustu og sjúkraflutninga undir ráðuneyti heilbrigðismála sem hafi umsjón með starfsemi sjúkraflutninga á landinu öll.
Miðstöðin skal vera undir faglegri stjórn yfirlæknis bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa. Miðstöðin fær umboð ráðuneytis til að stýra málefnum sjúkraflutninga á landsvísu.
Í tillögunum er gert ráð fyrir að kostnaður við rekstur miðstöðvarinnar verði um 500 milljónir króna á ári og að þar starfi 16 – 18 manns. Ekki kemur fram hvar miðstöðin nýja skuli vera.
Strafshópurinn telur að í núverandi fyrirkomulagi sé skortur á samræmi í þjónustunni milli þjónustuaðila og heilbrigðisumdæma og óljós ábyrgð á gagnvart bráðaþjónustu, sjúkraflutningum og björgunarsveitum.
Í hópnum voru:
Viðar Magnússon, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa, formaður hópsins
Ingimar Eydal, skólastjóri Sjúkraflutningaskólans
Birkir Árnason, tiln. af Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Anton Berg Carrasco, tiln. af Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna
Sigurður E. Sigurðsson, tiln. af Sjúkrahúsinu á Akureyri – miðstöð sjúkraflugs
Guðrún Lísbet Níelsdóttir, tiln. af Landspítala
Tómas Gíslason, tiln. af Neyðarlínunni
Þór Þorsteinsson, tiln. af Slysavarnarfélaginu Landsbjörg
Guðbjörg Björnsdóttir, tiln. af Landssambandi heilbrigðisstofnana
Helga Harðardóttir, sérfræðingur HRN, verkefnastjóri hópsins