Spáð er djúpri lægð sem kemur yfir landið á morgun og verður viðvarandi fram á fimmtudag. Í tilkynningu frá Landsneti segir að með lægðinni sem stefnir á Reykjanes á morgun, þriðjudag, aukist veðuráraun á raforkukerfið. Eldingahætta verður með meginskilum lægðarinnar í fyrramálið einkum suðvestan- og sunnanlands. Með vestanáttinni í kjölfarið er reiknað með umtalsverðu álagi um sunnan og vestanvert landið af völdum vinds, ísingar og seltu sem verður viðvarandi fram á fimmtudag.
Landsnet hefur verið að fylgjast með veðurspám undanfarna daga og hefur undirbúið viðbrögð ef spár ganga eftir segir í tilkynningunni.
Nú þegar er búið að kortleggja hvaða landsvæði eru útsett fyrir seltu er unnið að undirbúningi hreinsunar í góðu samstarfi við slökkvilið á svæðunum sem um ræðir.
Eru landsmenn hvattir til að fylgjast með tilkynningum á www.landsnet.is, Facebook og í Landsnetsappinu.