Vestri: þrír leikmenn í liði ársins og efnilegasti leikmaðurinn

Þrír leikmenn Vestra voru valdir í lið ársins i 2. deildinni á sérstöku lokahófi Fótbolta.net á Hótel Borg í Reykjavík. Fótbolti.net fylgdist vel með 2. deildinni í sumar og fékk þjálfara og fyrirliða deildarinnar til að velja lið keppnistímabilsins.

Elmar Atli Garðarsson, Zoran Plazonic  og Þórður Gunnar Hafþórsson voru valdir í úrvalslið 2. deildarinnar. Elmar Atli Garðarsson, fyrirliði Vestra, er í liði ársins í 2. deild annað árið í röð.

Tveir Vestramenn til viðbótar voru valdir á varamannabekkinn. Það voru þeir Robert Blakala og Hákon Ingi Einarsson.

Þórður Gunnar Hafþórsson var valinn efnilegasti leikmaðurinn þetta sumarið. Í umsögn um Þórð Gunnar segir á vef fotbolta.net:

„Hinn 18 ára gamli Þórður hefur unnið sig inn í stærra og stærra hlutverk hjá Vestra undanfarin ár síðan hann spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki 15 ára gamall. Í sumar spilaði Þórður alla 22 leiki Vestra og skoraði í þeim fimm mörk. Efnilegur kantmaður sem gæti átt eftir að ná mjög langt í framtíðinni.“

Vestri varð í öðru sæti deildarinnar í sumar og vann sér sæti í 1. deild á næsta ári.

 

DEILA