Kennt í öllum stofum í Háskólasetrinu – nýtt meistaranám

agstjórarnir fjórir, Matthías Kokorsch (Sjávarbyggðafræði), Catherine Chambers (Haf- og strandsvæðastjórnun), Dan Govoni (SIT misserisnám Climate Change and the Arctic) og Jill Welter (SIT meistaranám Climate Change and Global Sustainability).

Það hefur verið nokkuð þröngt á þingi í Háskólasetrinu undanfarna daga og vikur enda er kennt í öllum kennslustofum og kennarahópurinn sjaldan verið jafn fjölbreyttur. Það er því óhætt að segja að nýtt þroskaskeið sé hafið hjá Háskólasetrinu.

Nýja meistaranámið í Sjávarbyggðafræði hóf göngu sína nú í haust og var kennari fyrsta námskeiðs fagstjóri námsleiðarinnar, dr. Matthias Kokorsch. Á mánudaginn tók við námskeið í félagsvísindum með áherslu á dreifðar byggðir sem Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, kennir.

Námsleiðin í Haf- og strandsvæðastjórnun er á sínum stað en í vikunni hófst námskeið í sjávarvistfræði sem er eitt af skyldunámskeiðum námsleiðarinnar.

Síðastliðið ár samdi School for International Training, í Vermont í Bandaríkjunum, við Háskólasetrið um að kenna meistaranám hér í samstarfi við Háskólasetrið. Námsleiðin ber heitið „Climate Change and Global Sustainability.“Þessa dagana kljást nemendur í námsleiðinni við vísindalegar aðferðir í tengslum við loftslagsbreytingar ásamt kennara sínum Jill Welter. Annar kennari námsleiðarinnar er María Maack á Reykhólum, starfsmaður Náttúrustofu Vestfjarða. Báðar kenndu þær í námsleiðinni á síðasta ári en í ár hefur Jill Welter einnig tekið að sér hlutverk fagstjóra fyrir hönd SIT.

Nú rétt fyrir síðustu helgi bættist svo fjórði hópurinn við, SIT misserisnám, sem ber titilinn ”Iceland: Climate Change and the Arctic.” Dan Govoni, á Ísafirði, heldur utan um námið og er það Ísfirðingum vel kunnugt, enda dvelja nemendurnir í nokkrar vikur í fjölskyldum hér í bæ.

Þar að auki lauk í síðustu viku síðasta íslenskunámskeiði ársins við Háskólasetrið en alls bauð Háskólasetrið upp á fjögur íslenskunámskeið allt frá byrjendanámskeiðum til námskeiða fyrir lengra komna.

Því er óhætt að segja að það það sé líflegt í Háskólasetrinu þessa dagana. Sá tími er liðinn þegar hér var aðeins einn nemendahópur og einn kennari hverju sinni. Ætla má að það sé bæði skemmtilegra fyrir nemendur og kennara þegar flóran er svo fjölbreytt og um leið fær Háskólasetrið yfir sig töluvert meiri háskólabrag.

Heildarfjöldi nemenda hefði vissulega mátt vera meiri en nýja námsleiðin, Sjávarbyggðafræði, hefur aðeins sex nemendur nú á sínu fyrsta ári. En nú þegar allar þessar námsleiðir hafa fest rætur er næsta skref að láta þær vaxa og dafna. Fjöldi sprota gefur fyrirheit um vöxt í fleiri greinum en einni.

DEILA