Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar : forsendur breyttust

Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir að íbúðirnar í Sindragötu hafi farið á almennan markað einkum vegna þess að forsendur breyttust og að erfitt var að sjá hvernig dæmið átti að ganga upp.

Hann leggur áherslu á að sveitarfélagið eigi margar leiguíbúðir og sé með því að leggja sitt af mörkum til að uppfylla þarfir fyrir leiguhúsnæði.

„Ísafjarðarbær á rétt um 100 leiguíbúðir í sveitarfélaginu. Þetta er langhæsta hlutfall leiguíbúða á landsvísu ef mið er tekið af íbúafjölda. Fólk með fatlanir og eldri borgarar leigja nú þegar af sveitarfélaginu vítt og breitt um sveitarfélagið. Það verður því ekki annað séð en að sveitarfélagið sé virkur þáttakandi í því að uppfylla þörf fyrir leiguhúsnæði á svæðinu. Langt umfram það sem gengur og gerist.

Í raun má frekar færa fyrir því sterk rök að sveitarfélagið eigi að vinna að því að minnka umsvif sín á leigumarkaði á svæðinu.

En sú ákvörðun að selja íbúðirnar í Sindragötu á almennum markaði tengist einna helst þeirri staðreynd að forsendur breyttust og erfitt var að sjá hvernig upphaflega dæmið ætti að geta gengið upp. Viðbrögðin hafa líka sýnt að sú ákvörðun var skynsamleg.

Þá ber þess að geta að í hópi þeirra sem nú eru að kaupa íbúðir í Sindragötunni eru bæði einstaklingar með fatlanir og eldri borgarar. Aðgengi þar verður mjög gott, auk þess sem lyfta verður í húsinu. Slíkar íbúðir hafa ekki legið á lausu í sveitarfélaginu um nokkurt skeið.“

DEILA