Hrannar Örn nýr fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Hrannar Örn Hrannarsson.

Hrannar Örn Hrannarsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Hrannar er fæddur árið 1967.  Hann er með cand. oecon. próf í viðskiptafræði frá HÍ 1992 og MBA frá Háskólanum í Reykjavík 2017. Hann starfaði síðast sem deildarstjóri áhættu- og fjárstýringar hjá N1 hf. og þar áður meðal annars sem fjárreiðustjóri hjá Granda hf.

Átta sóttu um stöðuna sem auglýst var í upphafi sumars og voru viðtöl tekin við fjóra umsækjendur. Hrannar uppfyllir allar kröfur sem settar voru í auglýsingu og meira til.

Hrannar hefur störf á næstu vikum og tekur við af Þóri Sveinssyni sem sest í helgan stein eftir langan feril hjá sveitarfélögum og ríkisstofnunum.

„Stofnunin er á mikilli uppleið, meðal annars hvað varðar innra starf og starfsanda. Hrannar mun sem fjármálastjóri og hluti af framkvæmdastjórn leika stórt hlutverk í áframhaldandi framþróun,“ segir Gylfi Ólafsson forstjóri. „Þóri Sveinssyni þakka ég fyrir samstarfið.“

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða rekur sjúkrahúsin á Ísafirði og Patreksfirði, hjúkrunarheimili á Ísafirði, Þingeyri og Bolungarvík og sinnir heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæminu. Um 250 manns starfa í um 180 stöðugildum.

DEILA