Höfum við gengið til góðs …

Meginverkefni sveitarfélaga er starfræksla menntastofnana fyrir börn og unglinga í því augnamiði að efla nám þeirra og þroska. Hvernig til tekst ræðst af margvíslegum þáttum og ekki alltaf einboðið að ein leið sé greiðari en önnur. Það er því mikils um vert  að sveitarstjórnir séu meðvitaðar um stöðu mála og ábyrgar í því að reyna að stuðla að sem bestri menntun ungviðisins, – því og framtíðinni til heilla.

Sveitarfélög í landinu eru í kringum 70 talsins, misstór og ólík en engu að síður með það sameiginlega hlutverk að segja börnunum í sinni heimabyggð til og að koma þeim til þroska í gegnum nám. Nú er ekki auðvelt að leggja mat á gæði skólastarfs og þaðan af síður að tryggja þau til lengri tíma. Það verður þó ekki um það deilt hvar faglega ábyrgðin liggur í því efni og vafalítið eru allir sem koma að stjórn síns sveitarfélags á einu máli þar um. Það vakti því mikla undrun mína að lesa á vef Menntamálastofnunar hve þessum málum er misjafnlega farið á milli sveitarfélaga er grunnskólann varðar. Þar má sjá að á tuttugu ára tímabili eru það nánast alltaf sömu sveitarfélögin sem eru yfir eða undir landsmeðaltali  samræmdrar grunnskólaeinkunnar frá 2000 – 2019 í íslensku og stærðfræði.

Þegar að niðurstöður fyrir Ísafjarðarbæ er skoðaðar kemur í ljós að yngsta stigið er að sækja í sig veðrið, en bæði miðstigið og unglingstigið standa höllum fæti. Sérstaklega er sláandi hve langvinnur vandi unglingastigsins er búinn að vera þ.e.a.s. árangurinn undir landsmeðaltali. Ég ætla ekki að leggja mat á það hér hvað veldur þessu en einungis að benda á að upp úr þessari keldu þarf að komast. Það er vissulega hægt, til þess er nægur mannafli og mjög mikill vilji. Greina þarf vandann og finna lausnir sem duga fram í tímann svo Ísafjarðarbær geti verið stoltur af sínu skólastarfi og skilað af sér æskunni með vel útbúinn ferðamal. Ég held það væri þarft verk að einbeita sér að því um stund hvernig hægt væri að bæta hér úr og auka gæði og árangur okkar grunnskóla. Það er engin tilviljun að sum sveitarfélög standa sig betur en önnur í þessum efnum, en að sama skapi ekkert lögmál. Miklu skiptir að gera sér grein fyrir því að ekki er alltaf nóg að gera hlutina rétt heldur þarf að gera það sem á við, gera réttu hlutina.

Jóhannes Aðalbjörnsson

Sérfræðingur í stjórnun og þróun menntastofnana

 

DEILA