Í dag eru rétt 80 ár síðan sjómannadagurinn var fyrst hátíðlegur haldinn í Bolungavík. Þá var annar dagur í hvítasunnu og gengu sjómenn fylktu liði til sjómannamessu í Hólskirkju. Um kvöldið var skemmtun í Stúkuhúsinu þar sem Karlakór Bolungavíkur söng og stiginn dans fram undir morgun.
Af þessu tilefni kemur út í dag veglegt afmælisblað, 52 bls að stærð sem verður dreift í hvert hús á Vestfjörðum og til stofnana og fyrirtækja. Dreifingin fer fram í dag og á föstudaginn.
Meðal efnis er ávarp biskups Íslands Agnesar Sigurðardóttur og hátíðargreinar frá Sjávarútvegsráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni, Jóni Páli Hreinssyni, bæjarstjóra og Einari K. Guðfinnssyni, fyrrv sjávarútvegsráðherra. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir skrifar minningarorð um Geir Guðmundsson, sem lengst allra stjórnaði hátíðahöldum á sjómannadeginum í Bolungavík. Efnismikið og fróðlegt viðtal er við Guðmund Halldórsson, skipstjóra. Auk þess eru viðtöl við Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmann og Hrund Karlsdóttur, formanns Verkalýðsð og sjómannafélags Bolungavíkur. Er þó enn margt ótalið af efni blaðsins.
Útgefandi er Bolungarvíkurkaupstaður og ritstjórar Helgi Hjálmtýsson og Kristinn H. Gunnarsson.