Tæplega 50 ungir iðkendur Körfuknattleiksdeildar Vestra eru á leið á Nettómótið stóra í Reykjanesbæ sem fram fer um helgina. Mótið er ætlað börnum í 1.-5. bekk og er nú haldið í 29. sinn.
Það eru körfuknattleiksdeildir Keflavíkur og Njarðvíkur sem standa að mótinu en skipulag er allt hið glæsilegasta og fjölbreytt dagskrá framundan. Með í för Vestrabarnanna fimmtíu er örugglega ámóta stór hópur foreldra, forráðamanna og systkina auk þjálfara Vestra.
Ekkert mót í íslenskum körfubolta kemst með tærnar þar sem Nettómótið hefur hælana en hátt í 1500 iðkendur hafa tekið þátt Nettómótinu þegar mest lætur. Vestri sendir jafnan stóran hóp iðkenda á mótið og í ár skiptast þeir í 12 lið, jafnt stráka sem stelpna. Sumir keppendur eru að stíga sín fyrstu skref í móti en aðrir eru sjóaðri og hafa mætt á Nettó öll fimm árin sem keppendur eru gjaldgengir á þetta skemmtilega mót.
Við óskum öllu Vestrafólkinu okkar góðrar ferðar og góðs gengist í keppni helgarinnar. Áfram Vestri!