Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar leggur til að sveitarfélagið fari í stefnumótunarvinnu í ferðaþjónustumálum. Vegna aukinna umsvifa í ferðaþjónustu er talið nauðsynlegt að huga að stefnumótun m.a. í rekstri salerna, tjaldsvæðamálum, komum skemmtiferðaskipa og fl. Ráðið telur löngutímabært að þessi vinna fari af stað fyrir sunnanverða Vestfirði.
Þetta kemur fram í fundargerð ráðsins frá 19. mars.
Styrkir
Þá kemur fram að Ferðamálastofa hefur veitt styrk að fjárhæð 8 mkr. til þess að bæta aðstöðu og umhverfi við sundlaugina á Krossholtunum á Barðaströnd.
Menningar- og ferðamálaráðið leggur til að hækka styrk úr bæjarsjóði til Skrímslasetursins á Bíldudal um 200.000 kr. Ráðið leggur einnig til að skoðað verði að Skrímslasetrið verði nýtt betur af grunn- og leikskólum í Vesturbyggð til aukinnar vitundar um menningu svæðisins.