Ör á bogastreng Hvalár?

Finnbogi Hermannsson, rithöfundur.

Því guð á margan gimstein þann sem glóir í mannsorpinu. Svo kvað Bólu-Hjálmar í kröm sinni þegar honum barst peningasending að sunnan norður í Akrahrepp í Skagafirði þar sem hann hjarði gamalmenni. Sendandinn lét ekki nafns síns getið en talið að hann hafi verið Pétur Pétursson biskup. Sama getum við Vestfirðingar sagt um fyrirtækið HS-orku sem nú býðst til að rétta Vestfirðingum gnægð raforku en svokallað afhendingaröryggi á orku hefur verið einna slakast á Vestfjörðum. Oft höfum við mátt sitja í myrkri við kertaljós og tölvur okkar hafa ruglast í ríminu. Ekkert annað að gera en bíða átekta að ljósið kæmi aftur, kannski eftir dúk og disk.´Til að átta okkur almennilega á rafmagnsleysinu sem við höfum mátt þola er útkomin skýrsla frá stofnuninni Landsneti þar sem þetta er allt upp teiknað og enginn þarf að velkjast í vafa um þann tíma sem hann hefur hlotið að sitja í rafmagnsleysinu. Heldur hefur þetta þó farið batnandi, sérstaklega hérna fyrir norðan, eftir að jargansmikil varaaflsstöð var reist innan um kríuhreiðrin á sandinum innan við Bolungarvík. Fer stöðin í gang af sjálfu sér þegar rafstraumur rofnar. Hún kostaði eitthvað í námunda við einn milljarð. En við verðum líka að hugsa um meðbræður okkar fyrir vestan þar sem gamaldags díselvélar eru oftast til taks en ekki alltaf. Þá er illt í efni. Því eru það gleðitíðindi að í framtíðinni skuli raforka flæða yfir Vestfirði og verður varla hægt að drepa niður fæti án þess að fá stuð og þá duga engir roðskór. En til að framleiða allt þetta rafmagn þurfa velgjörðarmenn okkar að virkja og hefjast handa norður í Ófeigsfirði í Strandasýslu. Þar ætla þeir að leggja kraftsins ör á bogastreng Hvalár; að nota máttinn rétt í hrapsins hæðum/ svo hafin yrði í veldi fallsins skör, eins og Einar Befediktsson orti svo fjálglega fyrir meira en öld og vildi auðvitað virkja Dettifoss. Þá voru aðrir tímar og framfaramenn reiðubúnir að virkja hvaðeina. Einhver slembilukka að gersemin Gullfoss var ekki

virkjaður og eyðilagður. Þá minnumst við Sigríðar í Brattholti með lotningu sem hótaði að kasta sér í Hvítá, væri látið til skraðar skríða. Þó er talið að tregða íslenskra bænda á Alþingi um framfarir hafi ráðið úrslitum að Fossafélagið lognaðist út af. Þá var nefnilega farið að deila um veiturafmagnið og heimarafmagnið og valdamaðurinn Jónas frá Hriflu var heimarafmagnsmaður. Engin ör var heldur lögð á bogastreng Dettifoss.

Uppsett afl Hvalárvirkjunar er fyrirhugað 55 megawött en það verður aðeins brot af því sem fer til Vestfirðinga. Að minnsta kosti 50 megawött fara til sölu á almennan markað í landinu. Eitthvað verða mennirnir líka að fá fyrir sinn snúð. Þeir ætla lika að bæta um betur umfram rafmagnið til Vestfirðinga svo sem að leggja akbrautir og hitaveitur í Árneshreppi og klæða utan gamla skólahúsið á Finnbogastöðum. Gera það svo ekki endasleppt með því að leggja ljósleiðara á bæina nyrðra og bæta hafnaraðstöðu á Norðurfirði.

Nú er það svo að gildismat hefur breyst nokkuð frá því að Einar Benediktsson vildi leggja kraftsins ör á bogastreng Dettifoss með augljósum afleiðingum. Farið er að líta á náttúruna með aðild og rétti og óheimilt að ganga á milli bols og höfuðs á náttúruvéum. Enginn hefur enn þá gefið sig fram að kasta sér í Hvalá og Vestfirðingar almennt sinnulausir um guðsgjafir náttúrunnar sem okkur var ríkulega úthlutað. En kannski breytist þetta og við förum að meta hvað okkur var skenkt.

Hugsum um það.

Með kærri kveðju

Bogi

DEILA