Lokaðar eldiskvíar henta mjög vel fyrir vestan

Möguleg 50 ára vindalda úr norðri (Heimild: Siglingasvið Vegagerðar).

Mikil og hröð framþróun á sér stað í eldistækni sjókvíaeldis í Noregi og víðar. Fjölmörg fyrirtæki (líklega yfir 20) eru að leggja gríðarlega fjármuni í þróunarstarf, sem miðar að því að draga úr eða fyrirbyggja neikvæð umhverfisáhrif. Eitt af þessum fyrirtækjum er AkvaDesign AS, sem er móðurfyrirtæki AkvaFuture ehf sem hyggst hefja laxeldi á Íslandi, fáist til þess leyfi.

Nú stendur fyrir dyrum að endurskoða lög um fiskeldi og hefur atvinnuveganefnd alþingis þar mikilvægt hlutverk. Hugsa þarf til framtíðar í þeim efnum og því afar mikilvægt að fulltrúar í atvinnuveganefnd kynni sér vel hina miklu nýsköpun í eldistækni sem á sér stað erlendis. Því var gleðilegt að atvinnuveganefnd hafi gert sér ferð til Noregs í s.l. viku til að kynna sér nýjustu strauma og stefnur í laxeldi.  En ef marka má orð nefndarmanns í útvarpsviðtali í morgun, þá gætir nokkurs misskilnings um að aðstæður „fyrir vestan“ henti ekki fyrir lokaðar eldiskvíar og að slík tækni sé ennþá á tilraunastigi. Það er reyndar rétt að mörg þróunarverkefnin eru skammt á veg komin en það á alls ekki við um þau öll. Lokaðar eldiskvíar eru hannaðar af fyrirtækinu AkvaDesign AS og hafa verið í fullum rekstri undanfarin fimm ár hjá norska fyrirtækinu AkvaFurture AS (www.akvafuture.no) og hafa uppfyllt bjartsýnustu væntingar. Reynslan sýnir að sparnaður vegna minni affalla og betri fóðurnýtingar í samanburði við opnar eldiskvíar greiðir hratt upp meiri fjárfestingakostnað  í lokuðum eldiskvíum. Þess utan fellst mikil hagkvæmni í því að þurfa ekki í sífellu að hvíla eldissvæði og flyta eldiskvíar á brott eftir hverja kynslóð, svo fátt eitt sé nefnt.

Lokaðar eldiskvíar sem íslenska fyrirtækið AkvaFuture ehf hyggst nýta í Ísafjarðardjúpi og Eyjafirði gera aðeins kröfu um að sjávardýpi sé meira en 35 metrar og ölduhæð minni en 2 metrar. Þá er miðað við hæstu mögulegu öldu á 50 ára fresti (reiknað miðað við veðurhæð og vindátt). Til fróðleiks má nefna að í 2.ja metra öldu eru 4 metrar milli öldudals og öldutoppa. Á eldissvæðum er einnig mikilvægt að sjávarstraumar sé ríkulegir eins og víðast má finna í fjörðum Íslands. Þessar umhverfiskröfur fyrir lokað eldiskvíar má finna í öllum fjörðum Vestfjarða ef frá er skilinn Önundarfjörður, sem er fremur opinn og grunnur.

Miklu skiptir fyrir Vestfirðinga að uppbygging í laxeldi sé hugsuð til áratuga ef ekki alda. Því skiptir sjálfbærni og samkeppnishæfni megnimáli. Í því samhengi er laxalús lykilþáttur. Reynslan frá suðurfjörðum Vestfjarða sýnir að laxalús veldur umtalsverðu tjóni, þrátt fyrir mikinn kostnað við fyrirbyggjandi aðgerðir. Í köldum vetrarsjónum þolir laxinn mun minni sárskaða en í hlýrri sjó og því er þol laxsins fyrir lúsasmiti afar lítið. Þess vegna er nauðynlegt að leggja áherslu á eldistækni sem fyrirbyggir dreifingu lúsasmits milli eldissvæða. Það á sérstaklega við um stór fjarðarkerfi með mikið burðarþol s.s. Ísafjarðardjúp og Arnarfjörð, þar sem sterkir sjávarstraumar dreifa lúsasmiti hratt og örugglega milli eldissvæða. Í slíkum fjarðarkerfum henta lokaðar eldiskvíar sérdeilis vel, bæði sem sjálfstæðar framleiðslueiningar eða í samrekstri við opnar eldiskvíar.

Jón Örn Pálsson

Starfar sem verkefnisstjóri hjá AkvaFuture ehf

 

DEILA